Uppistaðan framlag heimafólks
Menningarvika í Grindavík hefst í dag.
Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í sjötta sinn og er dagskráin að þessu sinni sérlega glæsileg í tilefni 40 ára kaupstaðarafmælis. Formleg setning hátíðarinnar verður í Grindavíkurkirkju laugardaginn 15. mars kl. 17:00. Eftir setninguna er gestum boðið í safnaðarheimilið í fjölmenningarlegt veisluhlaðborð.
Grindvískir íbúar frá Filippseyjum, Tælandi, Póllandi og fyrrum Júgóslavíu kynna og bjóða upp á rétti frá sínum heimalöndum. Sem fyrr er uppistaðan í Menningarvikunni framlag heimafólks auk þess sem fjöldi landsþekktra tónlistar manna, listamanna og skemmtikrafta heimsækja Grindavík. Menningarvikunni hefur verið vel tekið undanfarin ár. Allir leggjast á eitt við að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Tónleikar, skemmtanir, frásagnir, sýningar og uppákomur út um allan bæ.
Ætla að fylla íþróttahúsið
„Menningarvikan verður óvenju glæsileg í ár. Grindavík heldur upp á 40 ára kaupstaðarafmæli sitt í ár og öllu verður tjaldað til,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs. Haldið verður upp á afmælið jafnt og þétt allt árið en menningarvikan er óvenju stór og það verður Sjóarinn síkáti einnig. „Afmælisagurinn sjálfur er 10. apríl og verður haldið upp á hann með pompi og prakt. Það verður veisluborð menningar alla þessa viku; myndlistarsýningar, ljósmyndasýningar, fyrirlestrar og ráðstefnur um hitt og þetta og svo endar þetta með stórtónleikum í íþróttahúsinu þar sem fram koma Fjallabræður, Lúðrasveit Vestmannaeyja, Lúðrasveit Grindavíkur og Jónas Sig.“ Tónleikarnir eru sérstaklega settir saman vegna afmælisins og Lúðrasveit Vestmannaeyja á t.a.m. 75 ára afmæli á tónleikadaginn, 22. mars. „Við ætlum að fylla íþróttahúsið, 750 manns, og búið er að leigja stærsta og nýjasta hljóðkerfi landsins fyrir tónleikana. Engu verður til sparað til að gera þessa tónleika sem veglegasta,“ segir Þorsteinn.
Eitthvað fyrir alla aldurshópa
Dagskráin er að sögn Þorsteins hugsuð fyrir alla aldurshópa og t.a.m. verður listasmiðja fyrir yngstu krakkanau. „Kennarar í bænum sem hafa sett saman frábæra dagskrá með tónlist og myndlist, fyrir unglingana líka. Þetta er náttúrulega Grindvíkingar sem sýna það sem þeir hafa fram að færa og svo blöndum við inn í þetta menningu frá öðrum líka. Góður kokteill.“ Kristinn Reimarsson kom Menningarvikunni af stað á sínum tíma og hún hefur vaxið jafnt og þétt. Þorsteinn segir að þessi vika sé eitthvað sem Grindvíkingar bíði mjög spenntir eftir. „Svo eru brottfluttir Grindvíkingar og aðrir sem tengjast Grindavík á einn eða annan hátt mjög duglegir að koma. Mér finnst líka gaman að sjá að það eru fleiri og fleiri Suðurnesjamenn sem eru duglegir að mæta á svæðið og mér þykir mjög vænt um það,“ segir Þorsteinn.
Pottaspjall með bæjarfulltrúum
Þá ætla bæjarfulltrúar í Grindavík að vakna snemma þessa í Menningarvikunni og skiptast á að mæta í heita pottinn. „Það eru kosningar um sjómannadagshelgina og þeir ætla að mæta í pottinn klukkan sjö og spjalla um lífsins gagn og nauðsynjar og það sem er efst á baugi fyrir kosningarnar í vor.“ Til að kynna sér einstaka dagskrárliði Menningarvikunnar nægir að fara inn á vefsíðu bæjarins, grindavik.is. „Svo höfum við líka auglýst víða og verið sýnileg þannig að það er mjög auðvelt að nálgast dagskrána,“ segir Þorsteinn að lokum og hvetur Grindvíkinga, sem og alla Suðurnesjamenn, til að fjölmenna á menningarviðburðina.