Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Upphafsfólk Ljósanætur verði gert að heiðursborgurum
Föstudagur 1. september 2023 kl. 04:51

Upphafsfólk Ljósanætur verði gert að heiðursborgurum

Listakonan Fríða Rögnvaldsdóttir rifjar upp þegar hún ætlaði að setja upp listsýningu í Gömlu búð að í kjallara hússins voru tvö risastór býflugnabú og flugurnar voru síður en svo sáttar við að setja átti upp myndlistasýningu á heimili þeirra. Flugurnar voru fjarlægðar og sýningin varð að veruleika.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég fór með vinum til Tenerife í lok maí í eina viku, var orðin smá leið á rigningunni og kuldanum hér heima.

Hvað stóð upp úr?

Bara allt, gott veður, góður matur skemmtilegt fólk og svo fórum við tvisvar í golf.

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Hvað gosið stóð stutt.

Átt þú uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?

Já, Garðskagavitinn og fjaran þar. Þangað hef ég sótt í öllum veðrum. Það er fátt sem hressir bætir og kætir betur en góður göngutúr í fjörunni.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Steypa og mála á vinnustofunni minn, vinna í ART67 á föstudögum, fara í sund og hitta sundfélagana mína til 25 ára. Það er góð byrjun á deginum að synda 500 metra, hitta svo félagana í heita pottinum og ræða málin áður en að farið er í kalda pottinn og hittast svo í smá kaffispjall. Svo er afmæliskaffi fastur liður hjá okkur, þá er lagt fallega á borð frammi og afmælissöngurinn sunginn. Svo ætla ég að njóta þess að vera með mínum allra bestu, hlúa að því sem mér er kærast og muna að „Lífið er núna“.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Mér finnst Ljósanótt æðisleg og skemmtileg stemmningin sem myndast í bænum dagana fyrir aðaldaginn. Mér finnst að þeir sem áttu hugmyndina og stóðu að þessum viðburði í upphafi verði gerðir að heiðursborgurum Reykjanesbæjar.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

Ég ætla að reyna að sjá sem mest, fara í Bókasafnið og hlusta á ljóðalestur, renna suður í Hafnir og skoða Ljósið í kjallaranum, fara í Fischershús og Oddfellow-heimilið, skoða litasprengjuna hennar Heiðu Dísar og taka þátt í Ljósanæturpúttmótinu svo fátt eitt sé nefnt.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Besta minningin af mörgum góðum sem tengjast Ljósanótt er frá árinu 2007. Þá fékk ég að sýna í Gömlu Búð sem var þá mjög skemmd eftir bruna, allt mjög hrátt að innan sem mér fannst mjög spennandi og passa  vel við steyptu myndirnar mínar.

Axel minn heitinn kom með mér til að skoða rýmið og ákveða hvað við vildum gera, ég tók eftir nokkrum dauðum randaflugum á gólfinu en pældi ekkert í því frekar. Svo mætum við nokkrum dögum seinna til að klæða einn vegginn með jarðvegsdúk og þá verður skyndilega dimmt inni og ástæðan var að anddyrið var krökkt af suðandi æstum randaflugum. Við flúðum út með jakkana yfir höfðinu. Þetta var eins og í hryllingsmynd eftir Hitchcock en við gátum hlegið að þessu seinna.

Nú voru góð ráð dýr, aðeins ein vika í Ljósanótt og ekki hægt að sýna neitt við þessar aðstæður. Mikill eðalmaður var umsjónamaður hjá Byggðarsafninu og hét Björn Ragnarsson og annar eðalmaður, Ingi (Guðmundur Ingi Hildisson) sem var umsjónarmaður Duus húsa, tóku til sinna ráða, fundu út að bú væri undir húsinu sem yrði að fjarlægja. Bjössi tók að sér að skríða inn í kjallarann og þar fann hann tvö risastór bú.

Hvernig farið var að því að fjarlægja búin veit ég ekki en Bjössi sagði brosandi að hann ætlaði aldrei að borða hunang aftur. Sýningin gekk mjög vel og áfallalaust.

Mér þótti mjög vænt um að fá að sýna í Gömlu Búð því móðir mín fæddist þar 1918.

Ég átti svo eftir að sýna þar einu sinni enn áður en að Gamla Búð var gerð upp í það glæsilega hús sem það er í dag, það var árið 2016 þá sýndum við Stefán Ólafsson skólabróðir minn saman, hann með ljósmyndir og ég með mína steypu.Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Já, ég mæti alltaf í árgangagönguna og kjötsúpu hjá vini mínum Axel Jónssyni.