Unuhátíð í Garði 18. nóvember
Hollvinir Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst halda sína árlegu hátíð til að minnast Unu á fæðingardegi hennar, mánudaginn 18. nóvember nk. kl. 20:00 í sal Tónlistarskólans í Garði. Aðgangur er ókeypis en tekið verður á móti frjálsum framlögum til starfsins í Sjólyst, en nú fer að styttast í að uppbyggingu hússins ljúki að utan sem innan. Dagskráin er fjölbreytt: Bókin Konan við hafið, ljósmyndabók um Unu og samferðafólk hennar, sem Guðmundur Magnússon hefur unnið fyrir Hollvinafélagið verður kynnt og til sölu. Flutt verða vegleg tónlistaratriði og verðlaunaafhending fyrir ljóðasamkeppnina Dagstjarnan. Í hléi verða léttar veitingar.
Una ein af stofnendum Slysavarnardeildar kvenna
Una Guðmundsdóttir, sem margir minnast með virðingu og þakklæti, bjó í Sjólyst og lagði sitt af mörkum til að efla menningar- og félagslífið í Garðinum. Hún var ein af stofnendum Slysavarnadeildar kvenna árið 1934 og ritari þar í 25 ár. Deildin hefur fengið nafnið hennar og heitir nú Slysavarnadeildin Una. Una var gæslumaður barnastúkunnar Siðsemdar no14 í 30 ár. Þeir sem voru hjá henni þar muna hlýju hennar og veganestisins sem hún gaf þeim.
Bókasafn ungmennafélagsins Garðars var í mörg ár á loftinu heima hjá Unu í Sjólyst og í umsjón hennar. Það varð grunnurinn að Bókasafni Garðs. Una kenndi í 20 ár yngri börnum og þeim sem áttu í basli með nám. Hún var leikstjóri Litla leikfélagsins í Garði um árabil og nýtti þá hæfileika sína þegar hún setti upp leikrit með bæði börnum og fullorðnum í stúkunum Siðsemd og Framför.
Völva Suðurnesja
Bókin Völva Suðurnesja kom fyrst út fyrir 50 árum og var endurútgefin 10 árum síðar. Þar kemur fram að Una var lækningamiðill og þekkt fyrir hæfileika sína jafnt innan lands sem utan. Margir leituðu til Unu með sorgir sínar og áhyggjur. Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður hefur tekið fjölda viðtala við fólk sem segir frá kynnum sínum af Unu, fékk sjálfur að njóta kærleika hennar og hæfileika og fór frá henni með von í hjarta.
Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst var stofnað á fæðingardegi Unu 18. nóvember 2011. Una lést í október 1978.