Ungviðið í allra kvikinda líki
Í dag er einn stærsti nammidagur ársins, Öskudagur. Ungviðið er komið á kreik í allra kvikinda líki og eru búningarnir hinir fjölskrúðugustu eins og jafnan áður. Krakkarnir fara þessa stundina á milli fyrirtækja þar sem fólk fær notið söngs sem verðlaunaður er með einhverju góðgæti.
Þegar klukkan slær 14:00 hefst öskudagshátíð fyrir 1. til 6. bekk í Reykjaneshöllinni við Flugvallarveg. Nóg er um að vera á dagskránni eins og hoppukastalar, leikir, dans, glens og grín og svo verður “kötturinn” sleginn úr tunnunni. Skemmtuninni lýkur svo klukkan fjögur.
Það er Tónlistarskóli Reykjanesbæjar sem heldur utan um framkvæmdina eins og oft áður og eru foreldrar yngri barna beðnir um að taka virkan þátt í þessari skemmtun og aðstoða börnin. Einnig eru ömmur og afar sérstaklega boðin velkomin.
VF-Myndir: Siggi Jóns
Myndir teknar á öskudagsskemmtun í íþróttahúsi Njarðvíkur.