Ungu iðkendurnir njóta góðs af
Flugeldasalan hafin hjá Keflvíkingum
Flugeldasalan er knattspyrnudeild Keflavíkur gríðarlega mikilvæg. Ágóðinn af sölunni fer í uppbyggingu á kvenna- og karlaknattspyrnunni en bæði lið eru að berjast um að vera í fremstu röð. Unglingastarfið fer ört vaxandi og segir Hermann Helgason, stjórnarmaður deildarinnar, að mikilvægt sé að unga fólkið njóti góðs af svona fjáröflun. Fjölmargir Keflvíkingar leggja leið sína í K-húsið við Hringbraut og styrkja deildina ár eftir ár að sögn Hermanns. „Það er gríðarlega mikill velvilji í garð knattspyrnudeildarinnar. Ég vil hvetja Keflvíkinga til þess að styrkja okkur og vonandi sjáum við sem flesta. Við erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem okkur er sýndur.“
Úrvalið eykst ár frá ári og er mikið um fjölbreytta og skemmtilega pakka af öllum stærðum og gerðum. Sala hófst í gær og er opið frá klukkan 15:00 til 22:00 í kvöld. Þann 30. desember verður opið frá 12 til 22 og á gamlársdag frá 10 til 16.