Ungt fólk á fullt erindi á Alþingi
Elva Dögg Sigurðardóttir varð á dögunum óvænt þingkona fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi. Elva skipar fjórða sæti á lista flokksins í kjördæminu og var því ekki að gera ráð fyrir því að taka sæti sem varaþingmaður á Alþingi Íslendinga. Þegar Guðbrandur Einarsson þurfti að taka sér leyfi frá þingstörfum, og þau sem skipa annað og þriðja sætið gátu ekki leyst hann af, var haft samband við Elvu Dögg. Hún er í námi í Danmörku en skellti sér um borð í næstu flugvél og flaug heim til Keflavíkur.
Elva Dögg segir það hafa verið mjög skrítið að koma inn í Alþingishúsið í fyrsta skipti en skemmtilegt. „Ég var búin að sjá þetta svo oft á myndum og í fréttum og það er gaman að sjá hvernig þetta allt er og hvernig allt virkar. Nú er maður bara í þessu,“ segir Elva Dögg þegar hún tekur á móti útsendara Víkurfrétta í þinghúsinu.
„Ég fékk símtal frá Guðbrandi þegar ég var úti í Danmörku þar sem hann einfaldlega spurði hvort ég væri mögulega til í að koma inn á þingið þar sem hann yrði frá næstu vikurnar. Ég þurfti að fá smá tíma til að melta þetta þar sem ég var ekki alveg að búast við þessari spurningu. Ég var ekkert lengi að hugsa þetta. Þetta er spennandi tækifæri og mikill heiður að fá að koma hingað og starfa hér þannig að ég sagði já, pakkaði í tösku og skellti mér aftur heim.“
Elva Dögg er í meistaranámi í Danmörku og hefur verið þar síðasta ár að læra félagslegt frumkvöðlastarf og stjórnun. Félagsleg nýsköpun er hluti af náminu. „Við skoðum mikið nýsköpun til að efla samfélagið. Við skoðum hugmyndir, fyrirtæki og verkefni sem snúa að því að styrkja okkur sem samfélag. Þá smíðum við lausnir sem leiða til þess að samfélagið okkar verður betra,“ segir Elva Dögg.
Áður en hún fór í þetta nám í Danmörku hafði hún menntað sig í tómstunda- og félagsmálafræði og hafði verið að vinna í tengslum við það nám áður en hún flutti út til Danmerkur. Námið sem hún leggur stund á núna er til tveggja ára, þannig að hún segist eiga talsvert eftir.
Hvernig er að mæta svona blaut á bak við eyrun inn á Alþingi?
„Ég viðurkenni að það er alveg stressandi en einnig alveg ótrúlega spennandi. Ég fæ að koma hérna inn í byrjun þingsins þannig að ég næ að koma inn og heyra vel um málin og allt sem er að fara af stað. Ég fæ að vera partur af þessu og fá allar upplýsingar í byrjun, sem er mjög gott. Ég er mikið að læra og skilja leikreglurnar og hvernig praktíkin virkar.“
Nú ertu búin að vera hérna vel á aðra viku þegar þetta viðtal er tekið. Hvernig ertu að upplifa þetta?
„Það er ótrúlega mikið stuð. Það er mikið í gangi og þetta er lifandi. Það er verið að mæta á nefndarfundi, þingflokksfundi, fundi í sal og það er mjög mikið af allskonar spennandi í gangi hérna sem er ótrúlega gaman að fá að fylgjast með og taka þátt í.“
Ertu búin að fara í púlt?
„Já, ég hef tvisvar farið í púltið. Ég hélt jómfrúarræðuna mína og svo eina í tengslum við öldrunarrými. Það var stressandi en skemmtilegt.“
Um hvað fjallaði jómfrúarræðan?
„Hún fjallaði um það hvort við viljum ekki að Ísland sé þannig að þegar fólk fer út í nám velji það að koma aftur heim. Ég talaði aðeins um vexti og húsnæðismál og ræddi hvort þetta sé ekki eitthvað sem við viljum hugsa um og að við séum að skapa umhverfi sem fólkið sem fer út að læra vilji koma heim í.“
Hefur þú trú á að þú getir haft áhrif?
„Já, ég hef trú á því. Ég hef séð það hér inni á þinginu að það er algjörlega hægt.“
Jafnvel þó svo maður sé í minnihluta?
„Já. Það er alveg hægt að koma góðum málum í gegn, klárlega. Það þarf vilja og þrautseigju. Það þarf að halda áfram og gefast ekki upp og stefna áfram.“
Elva Dögg segir að núna í byrjun þingsins sé minnihlutinn búinn að vera með fleiri mál í gangi á þinginu. Nú eru mál að koma inn frá ríkisstjórninni, sem er spennandi líka, og á næstu vikum fáum við vonandi að heyra meira frá ríkisstjórninni. Fólkið í minnihluta er búið að vera mjög duglegt að koma upp og halda sínum málefnum á lofti.
Hver finnst þér vera mikilvægustu málefni þíns kjördæmis, Suðurnesja og Suðurkjördæmis?
„Heilbrigðismálin hafa verið mikið í umræðunni núna og við loksins komin með betri aðstæður og meiri fjölbreytni í þjónustu fyrir íbúana okkar, sem er ótrúlega mikið fagnaðarefni. Það má hins vegar margt bæta áfram og við megum ekki hætta þarna því það er svo mikil stækkun og ör þróun í samfélaginu okkar og kjördæminu öllu. Það eru allskonar samfélagsleg verkefni sem við þurfum að finna og tækla. Þá kemur samfélagslega nýsköpun mjög sterk inn þar. Það er eitthvað sem ég vil tala fyrir og langar að kynna og koma inn með því nýsköpun er á mikilli uppsiglingu á Íslandi og við verðum að passa að sofna ekki á verðinum varðandi samfélagslega nýsköpun. Fólk sem er að koma inn með hugmyndir, fyrirtæki og allskonar sem snýr að þessum samfélagslega ábata og að við séum líka að styrkja það og búa til umhverfi fyrir fólk til að láta hugmyndir sínar dafna.“
Elva Dögg vill sýna ungu fólki að það er hægt að hafa áhrif og það sé gaman að taka þátt í stjórnmálum og samfélagslegri umræðu. „Það er ótrúlega mikilvægt að við gerum það og að við látum okkur málin varða og að við höfum skoðanir. Þetta er framtíðin okkar og ef að við höfum ekki skoðanir og tökum ekki ákvarðanir þá gerir það einhver annar fyrir okkur,“ segir Elva Dögg.
Finnst þér ung fólk ekki vera nógu duglegt í því?
„Jú, jú. Mjög margir ótrúlega duglegir og það er mikið af baráttufólki í alskonar verkefnum en það má alltaf gera betur og ég held að við getum gert miklu betur.“
Nú hefur verið talað um það að atvinnulíf á Suðurnesjum hefur verið einsleitt í gegnum tíðina. Nýsköpun kom upp eftir bankahrunið og það varð smá sprettur þá en svo hefur þetta aðeins farið til baka. Heldur þú að nýsköpun geti aukið fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu?
„Alveg klárlega. Það er svo mikilvægt að við styðjum við fólkið sem er með hugmyndir, að það fái stuðning og leiðsögn við að koma sínum hugmyndum á framfæri.“
Elva Dögg á von á því að vera á þingi fram í nóvember. Þá á hún von á því að Guðbrandur Einarsson verðið orðinn sprækur á ný en hann fór í hnjáliðsaðgerð á dögunum. Hún segir að á Alþingi sé ótrúlega mikið af góðu fólki í öllum flokkum og segist vera vel tekið í Alþingishúsinu.
Fatnaður þingmanna er oft til umræðu. Tókstu fataskápinn þinn með frá Danmörku?
„Ég er mjög mikið dressuð upp af systur minni og einnig mömmu. Ég hef verið að fá mikið lánað hjá þeim. Ég var gella í framhaldsskóla en síðustu ár hef ég ekkert verið mikið í gellufötum. Ég er búin að vera að fá aðstoð og kaupa farða, þannig að maður sé nú ágætlega til fara.“
Elva Dögg býr í foreldrahúsum á meðan þessu stutta þingstoppi stendur á Íslandi og telur að sitt fólk sé bara ánægt með að hafa fengið hana heim í þetta óvænta verkefni. Hún segir einnig að Alþingi sé algjörlega staður fyrir ungt fólk. Það eigi erindi þangað inn og það sé mikilvægt að Alþingi endurspegli þjóðina.
Nánar má sjá í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á vf.is.