Ungmenni framleiða fréttainnslög fyrir Suðurnesjamagasín
Hópur ungmenna úr Reykjanesbæ hefur síðustu vikur unnið að fréttainnslögum fyrir þáttinn Suðurnesjamagasín sem Víkurfréttir eru með á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og á vf.is. Verkefnið er til komið vegna Barna- og ungmennahátíðar Reykjanesbæjar, sem haldin verður dagana 6.-24. maí næstkomandi.
Hópurinn saman stendur af sjö ungmennum sem eiga bjarta framtíð. Ungmennin hafa séð um undirbúning, fréttamat, upptökur og viðtöl. Þá komu þau í myndver Víkurfrétta og tóku upp kynningar fyrir innslögin. Fyrstu þrjú innslögin frá hópnum eru í Suðurnesjamagasíni í þessari viku og svo verða fleiri innslög í þættinum að viku liðinni.
Aðspurð segja ungmennin að verkefnið hafi kennt þeim hvernig skal taka viðtöl og hugsa meira út fyrir kassann. „Að vera með hóp af krökkum að gera verkefni sem sumir fullorðnir hafa ekki einu sinni tækifæri til að gera, er algjör snilld,“ segir Sóley, sem er meðlimur teymisins.
Innslögin má sjá í Suðurnesja-magasíni á Hringbraut og vf.is dagana 6. og 13. maí en þar fjalla ungmennin um ýmis mál er varða ungt fólk í bænum.