Ungmenni blása til góðgerðartónleika
Það er kraftur í ungmennum í Reykjanesbæ en seint á síðasta ári fæddist hugmynd hjá þeim sem stýra Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjörheimum og Ungmennaráði Reykjanesbæjar, að halda góðgerðartónleika. Eftir að nokkrum hugmyndum hafði verið kastað á milli var ákveðið að styðja við bakið á Grindvíkingum. Margt af þekktasta tónlistarfólki Íslands kemur fram á tónleikunum auk tónlistarmanna af Suðurnesjum. Tónleikarnir verða haldnir í Hljómahöllinni fimmtudagskvöldið 7. mars.
Thelma Hrund Hermannsdóttir er aðstoðarforstöðumaður Fjörheima og Leó Máni Nguyén er formaður NFS. Hann fór yfir aðdragandann.
„Þegar ég var í framboði til formanns NFS langaði mig alltaf til að gera eitthvað stórt, eitthvað sem myndi vekja athygli á nemendafélaginu. Ég hitti Thelmu og þau hjá Fjörheimum, ég vissi að þau höfðu áður haldið góðgerðartónleika og hugmyndin fæddist, að gera þetta saman því við náum öll til mismunandi aldurshópa. Fjörheimar eru með tengingu við foreldrana, við með aldurinn frá sextán upp í kannski 22 ára. Við köstuðum einhverjum hugmyndum á milli okkar varðandi góðgerðarmálefni en svo áttuðum við okkur á að Grindvíkingar eiga við ansi sárt að binda og ákvörðunin var mjög auðveld. Við fórum strax af stað og hefur gengið ótrúlega vel að undirbúa þetta. Það er mikill kraftur í okkur ungmennunum og allir til í að leggja verkefninu lið. Valur Axel Axelsson sem er markaðsstjóri NFS hefur haft samband við allt tónlistarfólkið og alls staðar hefur okkur verið vel tekið. Einhverjir uppteknir eins og gengur og gerist en allir mjög jákvæðir. Ég er mjög stoltur af dagskránni, ég lofa frábærum tónleikum þar sem GDRN, Mugison, Valdimar, Unnsteinn Manúel og Klara Elías bera hæst en auk þeirra kemur tónlistarfólk frá Suðurnesjum fram. Við fengum líka frábæran kynni, Villi Netó er mjög fyndinn og skemmtilegur.“
Thelma er ánægð með kraftinn í ungmennunum. „Við höfum í raun ekki þurft að gera neitt, krakkarnir hafa séð um þetta frá a til ö. Við erum þeim bara til halds og trausts, það virðist samt vera óþarfi því þau vilja gera þetta sjálf, henda sér bara út í djúpu laugina og ef þau reka sig á læra þau af því. Mitt hlutverk hefur kannski verið að koma að því hvernig eigi að útdeila þeim pening sem mun safnast. Ég hafði samband við sr. Elínborgu Gísladóttur, sóknarprest í Grindavík og við ákváðum að skipta því sem safnast á milli styrktarsjóðs Grindavíkurkirkju og styrktarsjóðs Rauða krossins. Þessir aðilar eru í tengslum við félagsþjónustuna í Grindavík og við vitum að fjármunirnir munu renna til þeirra sem virkilega þurfa á þeim að halda.
Ég hef fulla trú á að það verði uppselt á þessa tónleika, ég myndi allan daginn mæta til að sjá þessa flottu tónlistarmenn og ekki skemmir fyrir að vita að verið sé að styrkja gott málefni í leiðinni. Okkur hefur alls staðar verið vel tekið, fyrirtæki vilja styrkja málefnið, ekki bara í formi peninga heldur í formi veitinga og happadrættisvinninga. Það er virkilega gaman og gefandi að fá að taka þátt í svona verkefni og ég hlakka mikið til 7. mars,“ sagði Thelma að lokum.
Viðburðurinn er skipulagður af ungmennum en er opinn fólki á öllum aldri.
Miðasala á tónleikana er nú þegar hafin á Tix.is