Ungmennaráð fundaði með bæjarstjórn
Fyrir skömmu mættu fulltrúar í Ungmennaráði Reykjanesbæjar á fund bæjarstjórnar og ávörpuðu fulltrúa bæjarstjórnar, ásamt því að taka þátt í óformlegu spjalli eftir framsöguræður. Þetta er í annað sinn sem Ungmennaráð mætir á fund bæjarstjórnar til að leggja áherslu á þau mál sem þeim eru hugleikin.
Ánægja með samstarfið
Í framsöguræðunum og umræðu kom fram ánægja með samstarfið við bæjarstjórn og að það sem þau lögðu áherslu á síðast og hefði verið framkvæmt. Þau nefndu m.a. hvatagreiðslur, bætt strætókerfi og Ungmennagarðinn sem nú er verið að gera við 88 húsið. Þá komu Fjörheima-og Ungmennaráðið fram með hugmyndir ungmenna og tóku þátt í hönnun garðsins.
Aukin fræðsla um vímuvarnir og kynfræðslu
Formaður Ungmennaráðs, Sóley Þrastardóttir, lagði til að haldinn yrði sérstakur íþróttadagur fyrir alla nemendur í 9. og 10. bekk. Azra Crnac bað bæjaryfirvöld að beita sér fyrir því að fræðsla yrði aukin fyrir afburðarnemendur og að þeir ættu kost á taka fleiri áfanga í FS innan grunnskólans og geta þar með flýtt náminu. Í framsögu Thelmu Rúnar kom fram áhersla á að fræðsla yrði aukin um vímuvarnir og að kynfræðsla yrði efld innan grunnskólanna.
Fáir nota endurskinsmerki
Þá lýstu þau undrun yfir því hve notkun endurskinsmerkja væri léleg nú í skammdeginu og hvöttu bæjarstjórn til að láta útbúa endurskinsmerki sem bæði börn og ungmenni væru til í að nota. Fjölga mætti ruslafötum og hafa þær litríkari. Einnig mætti bæta lýsingar á nokkrum stöðum í bænum, sérstaklega á göngustígum sem liggja á milli hverfa.
Fleiri tillögur komu fram sem Ungmennaráð bað bæjarstjórn að skoða með sér og kom fram hjá bæjarfulltrúum að best væri að hittast aftur á vordögum og fara yfir verkefnalistann sem hópurinn lagði fram á fundinum.
Fyrsti karlkyns talsmaður Ungmennaráðsins
Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar, þakkaði góð framsöguerindi og fróðlegt spjall á fundinum og hvatti ungmennin til að fylgja tillögunum eftir. Böðvar gat þess að það væri fagnaðarefni að einn framsögumanna Ungmennaráðsins, Viðar Páll, væri karlkyns og um leið fyrsti karlmaðurinn sem talaði fyrir hönd ráðsins frá því að Ungmennaráðið var stofnað.
Ungmennaráð hefur fundað fjórum sinnum frá því í september og hefur mæting verið mjög góð á alla fundina. Framundan er eftirfylgni verkefna og lokaferð ráðsins á vordögum.