Unglingarnir hafa slegið tóninn
Unglingarnir á Landsmótinu hafa slegið tóninn í baráttunni gegn fátækt, sagði sr. Guðrún Karlsdóttir, formaður ÆSKÞ, í samtali við kirkjan.is að loknu Landsmóti ÆSKÞ um nýliðna helgi. 640 unglingar, leiðtogar og sjálfboðaliðar sóttu mótið sem var haldið í Reykjanesbæ um helgina.
Glaðir og þreyttir þátttakendur á landsmóti æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar héldu heim frá Reykjanesbæ upp úr hádeginu á sunnudag og það var mál manna að mótið hefði verið vel heppnað. Agnesi M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, setti mótið á föstudagskvöldið og sagði þá að eldmóður og áhugi krakkanna væri smitandi.
Dagskrá landsmótsins var fjölbreytt. Haldið var karnival fyrir íbúa Reykjanesbæjar og hæfileikakeppni og búningakeppni æskulýðsfélaganna fóru fram á laugardeginum. Landsmótinu lauk með messu í íþróttahúsinu á sunnudagsmorgun, þar sem prestar úr Keflavíkurkirkju og vígslubiskupinn í Skálholti þjónuðu.
Krakkarnir eru til fyrirmyndar
Guðrún Karlsdóttir, formaður ÆSKÞ, sagði að mótið hefði verið stórkostlegt. „Ég er stolt af því að við höfum safnað sex hundruð unglingum af öllu landinu saman og af því hvað þau voru glæsilegir fulltrúar íslenskrar æsku. Þessir krakkar eru til fyrirmyndar í því að vera tilbúin að bretta upp ermarnar og láta til sín taka og gott af sér leiða í baráttunni gegn fátækt. Það er verk að vinna og þau hafa slegið tóninn fyrir okkur öll.“
Tökum höndum saman gegn fátækt
Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, sagði í samtali við kirkjan.is að þátttakendur á Landsmóti horfðust í augu við þann veruleika að fátækt á Íslandi er staðreynd. „Í stað þess að ræða um vandann erum við að leita lausna. Barn sem elst upp við fátækt, það verður af í lífinu. Við eigum bara eina barnæsku og við ætlum sem kirkja og samfélag að taka höndum saman og sporna gegn þeirri þróun sem er að eiga sér stað í samfélaginu að börn búa ekki við viðunandi velferð.“
Fjöldi lagði leið sína á karnival
Fjöldi íbúa í Reykjanesbæ lagði leið sína á karnival sem unglingarnir buðu til á laugardagseftirmiðdegi. Þar var meðal annars hægt að kaupa nýbakaðar pönnukökur og kaffi, spjalla við unglingana, fá andlitsmálningu eða kaupa sér bænafiska. Á karnivalinu voru líka nokkur skemmtiatriði, unglingar af landsmótinu sungu og dönsuðu. Allt fé sem safnaðist á karnivalinu rennur í söfnun Landsmótsins fyrir Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar.
Í lok mótsins var tilkynnt að næsta Landsmót ÆSKÞ verður haldið á Ísafirði.
Ljósmyndir: Bogi Benediktsson