Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 19. júní 2001 kl. 09:53

Unglingar í Öræfum

Undanfarin átta ár hafa 10. bekkingar úr Holta- og Heiðarskóla í Reykjanesbæ farið í skólaferðalag austur í Öræfi. Þeir hafa gist að Hofi, sem er skóli og samkomuhús. Björn Víkingur Skúlason kennari tók saman nokkra punkta um síðustu ferð 10. bekkjar sem var einstaklega vel heppnuð og unglingarnir voru bæjarfélaginu svo sannarlega til sóma.


Það hefur verið einkar ánægjulegt við þessar ferðir hvað framkoma unglinganna hefur verið til fyrirmyndar, þannig að ókunnugir hafa haft orð á, og lýsir sér vel í því að þeir eru alltaf velkomnir aftur. Einnig hversu nægjusamir þeir eru og skapandi þrátt fyrir takmarkaðan tækniaðgang.
Rík áhersla er lögð á útiveru og á veðrið stóran þátt í að vel takist. Í þessi átta ár hefur aldrei fallið niður dagskrá þó veðrið hafi verið margbreytilegt allt frá hagléli og roki til 20° sólbaðshita. Nú í maí fóru 34 af 37 nemendum 10. bekkjar Heiðarskóla sem ,,vorboðar“ í Öræfin. Hér á eftir fer stutt frásögn af upplifun formanns nemendaráðs Sif Aradóttur, af ferðalaginu:

Skúmurinn rotaði bóndann
,,Við í 10.bekk Heiðarskóla fórum helgina 17.-21. maí í ferðalag að Hofi í Öræfasveit. Við lögðum af stað á fimmtudegi og fór hann að mestu í akstur enda 6 tíma leið að Hofi, heim komum við á mánudegi.
Við gerðum okkur margt til skemmtunar; fórum í fuglaskoðun út í Ingólfshöfða, ísklifur á jökul, sund, siglingu á Jökulsárlóni og á hestbak í villtri náttúrunni. Út í höfðann fórum við á fjárflutningavagni sem búið var að breyta í fólksflutningavagn. Ferðin út í Höfðann er hálftíma löng yfir þvílíkan eyðisand að það hálfa væri hellingur. Er þangað var komið vorum við frædd af Sigurði bónda á Fagurhólsmýri um landnám Ingólfs og fuglalífið í Höfðanum. Á ferð okkar um Höfðann skoðuðum við Lundann í nærmynd en Skúmurinn gerði harða hríð að okkur þegar við skoðuðum eggin hans. Þess má geta að Skúmurinn hefur tvisvar sinnum rotað Sigurð bónda sem er nú alls engin smásmíði, en karlinn hefur staðið upp aftur.

Risaísjakar á Lóninu
Við skoðuðum vitann og renndum okkur í lokin niður sandinn sem nær upp á höfðann eins og alda. Útreiðatúrinn frá heimkynnum Flosa á Svínafelli var mjög skemmtilegur, engin alvarleg óhöpp urðu þó svo að þrír einstaklingar hafi ,,sigið“ af baki og hesturinn hjá einum neitað að halda áfram. Ferðin á Jökulsárlónið var spennandi og áhugaverð, við sigldum um á gúmmíbátum og fengum að vita ýmsar staðreyndir um Lónið. Kom það mörgum á óvart hve stórt það er, og að það er allt að 200 metra djúpt og sáum við risaísjaka sem sumir skrapa botninn! Ekki minnkaði það ánægjuna að kynskipt var í bátana og vatnsgusurnar gengu á milli.

Svifum í frjálsu falli
Á göngu okkar um Svínafellsjökul vorum við klædd mannbroddum og með ísexi í hendi. Þar klifum við 10 metra háan íshamar og vorum fest í öryggislínu, með hjálm og allar ,,græjur“. Að klifra upp ísvegginn var alls ekki svo erfitt og gaman að svífa, sem næst í frjálsu falli, niður aftur! Sundlaugin, sem hét að sjálfsögðu Flosalaug, er hringlaga og gátum við gert hringiðu ef nógu margir gengu í hringi meðfram bakkanum. Mjög frískandi var að skella sér í laugina og pottana. Veðrið var ágætt alla ferðina fyrir utan rigningu næst seinasta daginn, en enginn er verri þótt hann vökni.
Við notuðum mikinn tíma úti við, í fótbolta og gönguferðir, aðallega til að ná GSM-sambandi, en ekki var mikið sofið. Það var eins og við þyrftum ekki meiri svefn en 3-5 tíma á nóttu, því á næturnar var gleðin í hámarki og hlógu allir mjög mikið og skemmtu sér konunglega J. Þessi ferð tókst í alla staði vel; óvenjulegar ferðir, gott að borða og gaman að vera með skólasystkinum sínum!“


SBK hefur alla tíð séð um að fara með nemendur í Öræfin og ber að þakka þeim fyrir lipra og góða þjónustu. Fólkið í Öræfunum sem hefur haft ofan af fyrir unglingunum á einnig miklar þakkir skildar, en síðast og ekki síst er gaman að fá að geta þess hvað unglingarnir hafa verið verðugir fulltrúar Reykjanesbæjar í þessum ferðum.

Björn Víkingur Skúlason kennari, Heiðarskóla.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024