Ungir og eldri fóru saman út að leika
Hópar stofnaðir í Sandgerði, Garði og Innri Njarðvík.
Þrír Facebook hópar hafa verið stofnaðir út frá pistli Njarðvíkingsins Guðmundar Stefáns Gunnarssonar um að hvetja unga sem aldna til að fara út að leika, í Sandgerði, Innri Njarðvík og Garði. Þegar hafa verið planaðar uppákomur og fullorðnir hist með börnin sín til að fara saman í leiki.
Einnig virðist sem hin fullorðnu vilji rifja upp leika frá því „í gamla daga“ því ein í hópnum Út að leika í Sandgerði langar að læra teygjutvist á ný og einnig að fara í sippó og rykk.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar hóparnir í Sandgerði og Innri Njarðvík komu saman og léku sér í brennibolta, ketti og mús og ýmsu öðru. Voru viðstaddir sælir með viðtökur og mætingu.
Víkurfréttir hvetja fólk til að setja myndir inn á hópana eða senda í [email protected].