Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 10. júní 1999 kl. 21:52

UNDRANDI Á VIÐTÖKUM SUÐURNESJAMANNA

Völundur Þorbjörnsson hjá Magnum ehf.: VF hafði sambandi við Völund Þorbjörnsson, eiganda Magnum ehf. og spurðist fyrir um fyrirtækið, sem var hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis, og gagnrýnina á starfsaðferðir þess sem áberandi hefur verið undanfarið á Suðurnesjum. „Magnum ehf. var fyrsta fyrirtækið sem stofnað var um öryggisgæslu á veitinga- og skemmtistöðum þegar ég kom því á flot 1996. Með stofnun fyrirtækis í þessum atvinnugeira áttu sér að sjálfsögðu stað breytingar á þeirri dyravörslu sem almenningur átti að venjast. Skyldur dyravarða eru umtalsverðar og mikill metnaður er innan fyrirtækisins að standa sig sem best gagnvart löggjafanum og framkvæmdavaldinu. Það er í raun grundvöllur rekstrarins. Markviss vinnubrögð kalla á meiri aga auk þess sem betur er haldið utan um þau lög og þær reglugerðir sem dyravörðum er gert að starfa eftir. Strax í upphafi sóttist ég eftir góðu samstarfi við lögregluyfirvöld og hef sótt um samþykki lögreglunnar fyrir hverjum nýjum starfsmanni sem inn er ráðinn. Sjálfur tel ég öryggi hins almenna gests á þeim stöðum sem Magnum ehf. sinnir gæslunni vera betur tryggt nú en áður, sérhæfing og stöðug endurmenntun starfsmanna okkar skilar hæfari starfsmönnum. Í dag starfa hjá fyrirtækinu 104 starfsmenn sem sjá um öryggis- og dyravörslu víðs vegar um landið. Rekstraraðilar skemmtistaða sjá sér hag í því að við tryggjum að hver gestur greiði aðgangseyri og erum fljótir að bregðast við ófriði innan dyra. Við reynum að tryggja öryggi þeirra sem á staðinn eru komnir til að skemmta sér með því að gera þá sem ófriði valda, eða taka þátt í, skaðlausa eins fljótt og hægt er og koma þeim á út. Varðandi vandræðin hérna í Keflavík þá verður að segjast eins og er að Keflvíkingar hafa nokkra sérstöðu því hvergi annars staðar höfum við þurft að eiga von á afskiptum fjöldans þegar við erum að sinna vinnu okkar. Atvikið um síðustu helgi er dæmi um slíkan vanda. Þar vorum við að afhenda lögreglu aðila sem handtekinn var innandyra eftir slagsmál þegar hópur manna réðist að lögreglu og dyravörðum.“ Nú birtist baksíðugrein í DV sl. mánudag sem höfð er eftir starfsmanni Magnum ehf. Í greininni ber dyravörðurinn hvorki Suðurnesjamönnum né lögreglunni hér vel söguna, kallar lögreglumenn skíthrædda stráklinga og fólkið múg? „Þessi grein í DV lýsir engan veginn skoðun fyrirtækisins heldur starfsmanns á reynslutíma og fer hann með rangt mál varðandi ýmislegt. Ég tel aðstæður sem þessar afar sérstakar og engan veginn hægt að dæma Suðurnesjamenn né lögregluna af viðbrögðunum. Lögreglumennirnir áttu engan annan kost í stöðunni en að nota „mace“ og ég í raun undrandi að ekki var gripið til þess fyrr. Mín skoðun er sú að óánægjan með Magnum og starfsaðferðir þeirra sé aðeins meðal fámenns hóps og að þeir sem fara á böll til að skemmta sér viti að öryggi þeirra er betur tryggt með Magnum.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024