Undirbúningur fyrir Sólseturshátíð í Garði
Hópur fólks á vegum Knattspyrnufélagsins Víðis undirbýr nú af kappi dagskrá Sólseturshátíðarinnar 2013 sem verður dagana 27. - 30. júní í sumar. Það er von þeirra sem að hátíðinni standa að sem flestir bæjarbúar takið þátt í hátíðinni, skreyti hús sín, mæti á viðburði, sýni sig og sjái aðra og brosi sérstaklega mikið alla helgina.
Viðburðir einstaklinga í Garðinum
Þeir aðilar í Garðinum sem áhuga hafa á að viðburðir þeirra komi fram í dagskrá hátíðarinnar vinsamlegast sendi póst á netfangið [email protected] með nákvæmum upplýsingum um hverskonar viðburð sé að ræða, opnunartíma og öðrum upplýsingum sem fram þurfa að koma. Það gætu verið viðburðir eins og persónulegar listsýningar í heimahúsi, tónlistarflutningur, basar, heimboð í kaffi og vöfflur, í kjötsúpu eða hvað fólki dettur í hug að gera fyrir gesti hátíðarinnar.
Litir á hverfum - hægfara breyting?
Nokkuð hefur verið um að fólk í græna hverfi hafi lýst yfir óánægju með græna litinn í þessum hluta bæjarins, þar sem þetta sé grænasta svæðið í Garðinum, og lítið beri á grænu skrauti í miðju túni. Undirbúningshópurinn hefur hlustað á þessar athugasemdir og slær hér fram þeirri hugmynd, að á tveimur árum þá verði lit þessa hverfis á Sólseturshátíð breytt í bláan lit. Þ.e. ef ekki verða hávær mótmæli frá íbúum í hverfinu.
Stefnan er því sú, að í ár verði umrætt hverfi skreytt með bláu og grænu, en svo næsta ár verði græni liturinn alveg látinn víkja, segir í frétt á heimasíðu Sveitarfélagsins Garðs.