Undirbúningur fyrir Ljósanótt gengur vel
Nú er rétt ein vika þar til dagskrá Ljósanætur hefst og er undirbúningur fyrir hátíðina nú á fullu skriði. Dagskráin hefst fimmtudaginn 4. september og stendur yfir fram til sunnudagsins 7. september. Að venju er dagskráin fjölbreytt og án efa munu allir finna eitthvað við sitt hæfi. Steinþór Jónsson formaður Ljósanæturnefndar segir að undirbúningur gangi vel. „Það sem stendur upp úr þessa Ljósanótt eru stórir viðburðir sem verða alla dagana, nýir hátíðarfánar í Reykjanesbæ og glæsilegur bær sem mun taka vel á móti fólki. Við leggjum áherslu enn og aftur á að koma með nýjar og ferskar uppákomur, þannig að undirbúningur er tímafrekari en að sama skapi skemmtilegri og gengur vel,“ sagði Steinþór í samtali við Víkurfréttir.