Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Umburðarlyndi ómissandi á jólnunum
Þriðjudagur 26. desember 2017 kl. 06:00

Umburðarlyndi ómissandi á jólnunum

Jón Björn Ólafsson er fæddur og uppalinn Njarðvíkingur, en hann starfar hjá íþróttasambandi fatlaðra og heldur fast í gamlar jólahefðir. Hann bakar ekki smákökur fyrir jól og klárar ekki jólagjafirnar fyrr en á Þorláksmessu. Jón Björn er kvæntur Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur og saman eiga þau tvær dætur og einn son.

Ertu mikið jólabarn?
Í samanburði við alvöru jólabörn þá næ ég rétt svo upp í meðalhófið. Annars hef ég mjög gaman af þessum árstíma og skreyti svona líka ágætlega, ekkert of mikið en nóg samt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heldur þú fast í gamlar jólahefðir?
Íhaldið er sterkt í mér á jólunum, held fremur fast í það sem ég kann vel við og við fjölskyldan. Nokkru fyrir jól eigum alltaf stóran og flottan dag við að skera út og steikja laufabrauð. Þú heldur ekkert jól án laufabrauðsins. Í seinni tíð eftir að menn lögðu það á sig að kunna ölgerð hér á landi þá hefur jólabjórsmökkun komið inn, sú iðja er í miklu uppáhaldi hjá mér. Gaman að setja á sig dómarahatt og upplifa bragðið af striti annarra.

Hvað er ómissandi á jólunum?
Umburðarlyndi.

Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Ég sakna þess að vera ekki á jólakortarúntinum með afa mínum og nafna á aðfangadag en besti og skemmtilegasti hluti hátíðarinnar er auðvitað þessi tími sem maður fær með ástvinum sínum.

Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Nei, get ekki stært mig af því. Eiginkona mín bakar alltaf lagtertu fyrir jólin, sú lagterta er í mikilsvirtum auðhringum og stöku bókaklúbb talin ein allra besta hátíðarkræsing sem völ er á í sýslunni.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Verkinu lýkur eiginlega aldrei fyrr en á Þorláksmessu, hvort sem það er að yfirlögðu ráði til að komast niður í bæ á röltið eða illu heilli sökum tímastjórnunarvanda. Hvort sem er þá er alltaf gaman að fara á röltið niður í bæ á Þorláksmessu.

Hvenær setur þú upp jólatréð?
Við fjölskyldan höfum verið að koma því haganlega fyrir um það bil tveimur til þremur vikum fyrir jól.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Það er æðislegt að fá jólagjafir, get eiginlega ekki gert upp á milli þeirra. Nintendo-leikjatölva hér í denn skoraði mjög hátt.

Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Þegar hún Hilma mín dregur fram einhverja lífseigustu fjárfestingu okkar hjóna og setur jólageisladiskinn í gang þar sem Kenny Rogers og Dolly Parton fara mikinn.