Um 2 millj. króna söfnuðust á vel heppnaðri Skötumessu
Ljúffeng skata rann ofan í 400 manns í Garði.
„Þetta er ákaflega skemmtilegt og gefandi verkefni sem margir koma að. Góðir vinir okkar í hópi fatlaðra einstaklinga njóta afraksturs af kvöldinu og í ár er það um 2 milljónir króna,“ sagði Ásmundur Friðriksson skipuleggjandi Skötumessunnar sem haldin var í sal Gerðaskóla í Garði í gærkvöldi.
Rúmlega fjögurhundruð manns mættu í skötuilminn í Garðinn og um 160 kg. af skötu runnu ljúft ofan í mannskapinn en einnig var á boðstólum saltfiskur, plokkfiskur og viðeigandi meðlæti eins og kartöflur og rófur og hamsatólg. Gestir voru í góðum sumargír og alsælir að fá svona mat á hásumri en flestir fá sér líka skötu á Þorláksmessu, rétt fyrir jólin. Skatan þótti mjög ljúffeng, „ekki of kæst“, eins og einhver hafði á orði.
Ljúf tónlist er spiluð nær allt kvöldið af ýmsum aðilum en í lokin er styrkjunum úthlutað og þeir sem þá hlutu að þessu sinni voru eftirfarandi:
Fjölskylda Rutar Þorsteinsdóttur, Björgin geðræktarmiðstöð, Ferðasjóður Ness, íþróttafélags fatlaðra, Hæfingastöðin sem nýlega opnaði á nýjum stað, ferðasjóður ungra blindra barna og þá hlaut Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður úr Garði einnig styrk. Þá hefur það verið venja hjá Ásmundi og félögum að fara með fatlaða í ferð síðar á árinu og meðal staða sem hafa verið heimsóttir í gegnum tíðina eru Alþingi en einnig hefur verið farið í bíó og fleira skemmtilegt.
Tíðindamenn VF voru í skötumessunni og tóku meðfylgjandi myndir. Myndagallerí frá kvöldinu er í myndasafni VF, smellið hér til að sjá þær.