Um 130 þátttakendur á forvarnadegi ungra ökumanna
Forvarnardagur ungra ökumanna í Reykjanesbæ var haldinn 7. mars. Þátttakendur í deginum voru rúmlega 130 talsins. Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, sagði frá Forvarnardegi ungra ökumanna sem haldinn var í Fjörheimum/88 húsinu á fundi Samtakahópsins í Reykjanesbæ. Forvarnardagurinn er haldinn í samstarfi við Reykjanesbæ, Lögregluna á Suðurnesjum, Brunavarnir Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Tryggingamiðstöðina.
Þátttakendur forvarnardagsins fengu fræðslu um afleiðingar umferðarlagabrota, ölvunarakstur, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sektir, tjónaskyldu og brot gegn þriðja aðila. Einnig fengu nemendur að heyra reynslusögu ungrar stúlku sem lenti í alvarlegu umferðarslysi árið 2010.
Markmið forvarnardagsins er að vekja unga ökumenn til umhugsunar um ábyrgðina sem fylgir því að vera ökumaður, fækka slysum og auka öryggi í umferðinni.
Forvarnardagur ungra ökumanna var fyrst haldinn árið 2004 í kjölfar banaslysa ungra ökumanna og hefur verið haldinn árlega síðan. Verkefnið hefur vakið athygli í fleiri landshlutum á Íslandi.