Tveir nýliðar í Útsvarsliði Grindavíkur
- Fyrsta viðureignin gegn Borgarbyggð 4. nóvember
Andrea Ævarsdóttir, Agnar Steinarsson og Eggert Sólberg Jónsson munu skipa lið Grindavíkur í spurningaþættinum Útsvari á RÚV í vetur. Liðið kom saman til æfinga í vikunni en fyrsta viðureignin verður á móti Borgarbyggð 4. nóvember.
Agnar var í sigurliði Grindavíkur í Útsvari árið 2012 og því reynslumikill í faginu. Hann er líffræðingur að mennt og starfar hjá Hafró í Grindavík.
Andrea er nýliði í Útsvarinu í ár. Á vef Grindavíkurbæjar kemur fram að hún sé þó enginn nýliði þegar kemur að fróðleik, enda safnstjóri Bókasafns Grindavíkur. Hún er bókasafns- og upplýsingafræðingur.
Eggert er fæddur og uppalinn í Borgarnesi og því mun mikið mæða á honum í fyrstu viðureigninni gegn sínum gömlu sveitungum. Hann er þjóðfræðingur að mennt og verkefnastjóri Reykjanes Geopark.
Daníel Pálmason verður svo símavinur hjá Grindvíkingum í ár.