Tugir hnúfubaka og súlur í loðnuveislu á Reykjanesi - myndir og video
Gríðarlegur fjöldi hnúfubaka er nú fyrir utan Reykjanesskagann enda stór loðnutorfa sem gengur þar þessa stundina. Öll hvalaskoðunarfyrirtækin sem gera öllu jöfnu út frá Reykjavík voru með skip í Sandgerðishöfn í gær og fluttu rútur þéttsetnar ferðamönnum frá Reykjavík. Þá var fjöldi ferðamanna og heimamanna úti á Reykjanestá í gær sem fyldist með súlum í þúsundavís stinga sér í sjóinn á milli hnúfubaka eftir loðnunni.
Að sögn Ara Steinarssonar, framkvæmdastjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Reykjavík Sailors, hefur jafn stór hópur ekki sést í háa herrans tíð. „Við töldum örugglega 50 dýr en það er ákaflega sjaldgæft að sjá svona marga hnúfubaka saman. Þetta var einstök upplifun sem fólkið sem var um borð hjá okkur mun aldrei gleyma. Menn náðu þarna einstökum myndum. Dýrin eru enn á sveimi á svipuðum slóðum enda greinilega mikið æti þarna núna“ bætir Ari við.
Hnúfubakur þekkist einna helst á gríðarlega löngum bægslum sem hann sveiflar gjarnan svo því fylgir mikill buslugangur. Hann getur orðið allt að 17 metra langur og þyngstu dýrin vega um 40 tonn (samkvæmt Wikipedia).