Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tröpputónar á Heiðarbrún á laugardag- Valdimar og súpa
Hjónin eru klár í tröpputóna á Ljósanótt.
Föstudagur 2. september 2016 kl. 15:57

Tröpputónar á Heiðarbrún á laugardag- Valdimar og súpa

„Við hjónin höfum gengið með það lengi í maganum að vera með einhvers konar uppákomu á Ljósanótt og bjóða heim. Hugmyndin kviknaði á sínum tíma eftir að hafa upplifað súpufjör hjá vinum okkar á Fiskideginum á Dalvík. Nú ætlum við að láta verða af því og bjóða í nokkurs konar götupartý,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem ásamt Guðjóni manni sínum bjóða til Tröpputóna á laugardegi á Ljósanótt, á milli 18 og 20, í súpu og músík.

Guðjón sem er meistarakokkur fjölskyldunnar hefur legið yfir súpuuppskriftum að undanförnu, fengið góð ráð og aðstoð hjá snillingum eins og Axel Jónssyni og samkvæmt heimildum Víkurfrétta er ekki ólíklegt að kókos og karrý verði meðal innihalds í súpunni góðu. Ragnheiður Elín segir að þetta verði ekki kosningapartý, heldur fyrst og fremst Ljósanæturteiti þar sem öllum er boðið á meðan súpubirgðir leyfa. „Jú, ég er í prófkjörsundirbúningi um þessar mundir, en þarna verður engin pólitík, bara góð súpa og tónlist. Hinn eini sanni Valdimar og Björgvin Ívar munu halda uppi söng og tónlist og kveikja í Ljósanæturgestum fyrir kvölddagskrána,“ sagði Ragnheiður Elín sem hvetur alla til að kíkja við á Heiðarbrúninni á leiðinni niður í bæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024