Transit lýkur á sunnudaginn
Sýning Hlyns Helgasonar „Transit“ í Suðsuðvestur lýkur næstkomandi sunnudag, 15. febrúar.
Hlynur hefur undanfarin ár unnið með ljósmyndir og kvikmyndir þar sem hann vinnur markvisst með staðhætti og menningu þess umhverfis sem sýningin er í. Í sýningarýminu Suðsuðvestur heldur hann uppteknum hætti og þungamiðja sýningarinnar er unnin í Reykjanesbæ og á Keflavíkurflugvelli. Hann velur að nýta bæinn og stöðu hans til marks um möguleika íslendinga í samtímanum, skoðar sjónarsviðið í kring um fólkið á ýtarlegan hátt og varpar myndinni til baka inn í samfélagið. Verkin á sýningunni eru flest stórar ljósmyndir, teknar í Keflavík, á Keflavíkurflugvelli, í Lundunúm og Saurbæjarhreppi í Dölum. 11 mínútna langt kvikmyndlistaverk kórónar sýninguna, þar sem nágrennið á Keflavíkurflugvelli er rannsakað á hæglætislegan máta; hvernig íbúabyggð getur fengið á sig mynd rólyndislegs landslags.
Suðsuðvestur er á Hafnargötu 22 í Reykjanesbæ, þar er opið um helgar frá kl.14-17 og eftir samkomulagi.