Torfærukappi lendir í vélhjólaslysi
„Ég er sáttur við það að vera lifandi og að hafa ekki lamast," segir Gunnar Gunnarsson torfærukappi í viðtali við Víkurfréttir, en fyrir 5 vikum síðan lenti hann í alvarlegu mótorhjólaslysi. Gunnar var ásamt 5 vinum sínum af Suðurnesjum að leika sér á svokölluðum Endoru mótorhjólum við rætur Heklu þegar slysið varð. Gunnar þurfti að bíða í tæpa fjóra tíma eftir að þyrla náði í hann.
Gunnar og félagar hans voru að leika sér á gömlum rallývegi í nágrenni Heklu. „Við vorum búnir að keyra á slóða þarna um morguninn og þegar leið á daginn fór að þiðna og það myndaðist drullupollur á slóðanum," segir Gunnar og þegar hann fór yfir eina holuna fór framdekkið á kaf og telur Gunnar að snjór hafi verið undir drullunni. „Þegar framhjólið fór niður kastaðist ég fram og lærið lenti á stýrinu. Ég datt í jörðina og hjólið lagðist ofan á mig. Þar sem ég ligg á jörðinni leit ég til hliðar og sá þá skóinn upp við andlitið á mér og hélt að ég hefði dottið úr skónum. Ég lyfti síðan hjólinu af mér og sé þá ekki aðra löppina. Þá fór ég að velta skónum við hliðina á mér fyrir mér og lyfti mér upp og þá átta ég mig á því að löppin hafði snúist heilan hring. Löppin lá þá með bakinu á mér og tærnar snéru fram," segir Gunnar, en þegar hann áttaði sig á aðstæðum tók hann í löppina á sér og dró hana þannig að hún lagðist eðlilega. „Um leið og ég var búinn að koma löppinni fyrir þá fann ég fyrir gríðarlegum sársakauka. Það var eins og verið væri að stinga mig í löppina og ég öskraði úr mér allan mátt. Það er ekki hægt að lýsa því hvað þetta var sárt."
Gunnar fór úr mjaðmalið, skálin sem mjaðmakúlan leggst í sprakk á þremur stöðum, liðþófarnir teygðust og vöðvar rifnuðu. Gunnar segir að hann sé heppin að halda löppinni. „Læknirinn minn segir að ég hafi bjargað löppinni með því að koma henni fyrir eftir að ég áttaði mig á því hvernig hún var. Löppin rifnaði nærri því af mér og ég er með stórt sár ofarlega á lærinu. Með því að færa löppina til komst blóðflæðið aftur af stað í löppina og það hefur bjargað henni," segir Gunnar en vinir hans stóðu þétt að baki hans þegar slysið varð. „Við kölluðum á sjúkrabíl og þyrlu, en við þurftum að bíða í tæpa fjóra tíma eftir þyrlunni því hún var í Vestmannaeyjum. Vinir mínir héldu undir höfuðið á mér og undir löppina á mér og hreyfðu sig ekki allan tímann. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir."
Á morgun tekur Gunnar við tveimur bikurum, Íslands- og bikarmeistaratitlunum í torfærunni í flokki götubíla. Gunnar ætlar að fara og taka á móti bikurunum, en hann segist vera til lítils gagns þessa dagana. „Læknarnir tala um að ég þurfi að taka því rólega í 5-6 mánuði. Ég má ekkert stíga í löppina í 3 mánuði og ef allt gengur vel fer ég í sjúkraþjálfun eftir tæpa tvo mánuði," segir Gunnar og aðspurður segir hann erfitt að sitja heima meðan aðalvertíðin á dekkjaverkstæðum landsins er í blóma, en Gunnar rekur dekkjaverkstæði Gunna Gunn við Aðalstöðina. „Ég reyni bara að vinna að skipulagningu í fyrirtækinu meðan ég er hér heima og get ekki skipt um dekk," segir Gunni og brosir góðlátlega.
Kjaftasögurnar vilja oft fara á kreik þegar fólk lendir í slysum eða öðrum óförum og segir Gunnar að hann hafi fundið fyrir slíku. „aður er að heyra að við höfum verið að leika okkur þarna á götuhjólum og að við hefðum verið þarna í einhverjum glæfraakstri. Þetta er algjört kjaftæði því við fórum varlega og það var enginn glannaakstur á okkur. Það hefði í raun verið betra ef ég hefði farið hraðar yfir holuna sem ég fór í, því þá hefði ég eflaust farið yfir hana."
Næstu vikurnar skera úr um það hvort Gunnar þurfi að fara í aðgerð eða hvort hann geti hafið sjúkraþjálfun. Hann er bjartsýnn á bata og segir að hann stefni að því að taka þátt í torfærunni næsta sumar. „aður setur náttúrulega stefnuna þangað, enda hefur mér gengið vel upp á síðkastið. Ég get sagt þér það ef ég hefði verið í torfærubílnum og oltið 10 veltur þá væri ég ekki jafn mikið slasaður og ég er í dag. Ég er búinn að selja mótorhjólið og ætla að einbeita mér að einu í einu. Ég gef mér góðan tíma í að jafna mig og er bara bjartsýnn."
VF-ljósmynd/JKK: Gunnar Gunnarsson á heimili sínu með bikarana sem hann hefur unnið til í torfærunni.