Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónsmíðavika S.L.Á.T.U.R. haldin í Garði
Miðvikudagur 15. júní 2011 kl. 10:34

Tónsmíðavika S.L.Á.T.U.R. haldin í Garði


Tónsmíðavika S.L.Á.T.U.R. er fyrirbæri sem hefur verið haldið tvisvar áður. Árið 2007 var slík hátíð haldin á Eiðum en þar komu fram tónskáldin og tónlistarmennirnir Fred Frith, James Fulkerson og Frank Denyer auk meðlima í S.L.Á.T.U.R.. Tilgangurinn er sem fyrr að mörg tónskáld hittist í eina viku, vinni mikið og hratt, veiti hvort öðru aðhald og bæði hvatningu og gagnrýni.  Tónsmíðavika S.L.Á.T.U.R. 2011 fer fram í Garði á Suðurnesjum.  Á henni er ekki stefnt á að hafa neina kennara eða nafntogaðar persónur sem leiðbeinendur heldur verður kastljósið á þáttakenndum sjálfum. Alls munu 12 tónskáld taka þátt í hátíðinni.

Fyrirkomulagið er þannig að fólk kemur saman og semur tónlist á daginn sem er síðan leikin á kvöldin af atvinnuhljóðfæraleikurum á opnum æfingum. Auk þess halda tónskáldin kynningar á verkum sínum. Hljóðfæraleikarar vikunnar að þessu sinni eru: Bergrún Snæbjörnsdóttir, Bára Sigurjónsdóttir, Heiða Árnadóttir og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í ár verður hátíðin haldin í Garði á Suðurnesjum dagana 19.-25.júní.

?
Viðburðir opnir almenningi á Tónsmíðaviku
Nokkrir viðburðir í vikunni verða opnir almenningi. Þeir eru eftirfarandi.

-Mánudagur 20.júní klukkan 20:00.
Fyrirlestrar um listrænt ágeng málefni í Samkomuhúsinu, Garði

-Þriðjudagur 21.júní klukkan 20:00.
Málstofa þar sem þáttakenndur kynna hugmyndir vikunnar og skeggræða. Þetta fer einnig fram í Samkomuhúsinu, Garði

-Miðvikudagur 22.júní klukkan 20:00.
Opin æfing með hljóðfæraleikurum vikunnar. Tækifæri til að heyra og sjá sýnishorn af verkum sem gætu breyst mikið á næstu tveim dögum. Æfingin fer fram í Samkomuhúsniu, Garði.

-Föstudagur 24.júní klukkan 22:00
Tónleikar í Samkomuhúsinu, Garði

-Laugardagur 25.júní klukkan 14:00
Tónleikar í Útskálakirkju. Einnig verður hægt að skoða innsetningar víðsvegar um bæjinn.



Hugmyndafræði tónsmíðavikunnar

Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík eru samtök sem leggja áherslu á tengsl og gildi samstarfs. Einnig leggja samtökin áherslu á faglega sjálfsmenntun í samfloti við jafningja. Í samtökunum tengist fólk og auðgar hugmyndaheim hvors annars og aðstoðar hvort annað við tilraunir. Margir aðilar hafa komið inn í samtökin í gegnum tónsmíðavikurnar. Á tónsmíðavikunni getur utanaðkomandi aðili gengið inn í tilraunamennskuna, hver og einn fylgir sínum hugmyndum en lærir af öllum í kringum sig. Þetta er grasrótarstarf sem er ætlað að auka vegsemd listrænt ágengrar tónlistar á Íslandi og víðar.

Á tónsmíðavikum verða oft miklar framfarir í starfi samtakanna og einstaklingana sem í þeim eru því á þessum samkomum er margt að læra, og allir þroskast af því að fara í  gegnum róttækar tilraunir sem geta bara átt sér stað þegar fólk er lokað saman í viku.  

Allir tónleikar, opnar æfingar og fyrirlestrar eða kynningar verða teknar upp og gefnar út fyrir þáttakenndur næstu tónsmíðaviku.


Um S.L.Á.T.U.R. samtökin

Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík eru eldri en marga grunar en fyrstu skrifuðu heimildir um tilvist samtakanna eru frá því um 2005. Samtökin hafa verið leiðandi í menningarmótun tónlistar og verið sameiginlegur vettvangur ýmissa frumlegustu tónskálda Íslands. Samtökin eru sívaxandi, innihalda konur og karla, fólk frá mismunandi löndum og fólk á ýmsum aldri. Starfsemin er fjölþætt og fyrir utan tónlistarviðburði halda samtökin uppi reglubundinni starfsemi í félagsaðstöðu sinni að Njálsgötu 14. Þar eru haldnir atburðir sem tengjast sameiginlegri sjálfsmenntun og annað sem stuðlar að síaukinni ágengni meðlima. Þar hefur almenningur einnig aðgang að tónlist SLÁTUR meðlima og bókasafni SLÁTUR sem inniheldur sérfræðirit um listrænt ágenga tónlist og fleira. Síðasta föstudag hvers mánaðar halda samtökin óformlega tónleika undir nafninu SLÁTURDÚNDUR. Samtökin halda árlega tónlistarhátíðina Sláturtíð, keppnina um keppinn, nýjárstónleika og tónsmíðaviku annað hvert ár. Framtíðarmarkmið samtakanna er að búa til nýja menningu. Sjá á vefsíðu samtakanna: www.slatur.is