Tónlistarveisla í Frumleikhúsinu í kvöld
Hjaltalín, Snorri Helgason, Sigríður Thorlacius & Heiðurspiltar verða með tónleika í Frumleikhúsinu í Keflavík í kvöld, þriðjudaginn 24. nóvember. Á tónleikunum munu þau kynna plötur sínar sem allar koma út á þessu ári undir merkjum Borgarinnar - hljómplötuútgáfu.
Tveir meðlimir Hjaltalín eru úr Reykjanesbæ, Rebekka fagotleikari og Guðmundur Óskar, bassaleikari. Guðmundur Óskar er einnig hluti af Heiðurspiltum, sem spila með Sigríði, og þar er einnig að finna mætan pilt úr Reykjanesbæ, sjálfan Sigurð Guðmundsson (úr Hjálmum). Húsið opnar kl. 20.00 og það kostar 2500 kr inn.
Hjaltalín hefur undanfarið aðallega verið iðið við tónleikahald á erlendri grundu en alls hefur sveitin leikið á um hundrað tónleikum síðastliðið ár. Tónleikar Hjaltalín hérlendis á árinu eru þó teljandi á fingrum annarrar handar, auk þess sem sveitin hefur aldrei farið í tónleikaferð um Ísland á við þessa. Því verður þessi tónleikaferð ekki eingöngu kjörið tækifæri fyrir fólk á landsbyggðinni til að upplifa tónleika Hjaltalín heldur einnig langþráður draumur meðlima Hjaltalín til að sanna sig utan höfuðborgarsvæðisins og er tilhlökkunin mikil meðal hópsins.
Með í för verða einnig Snorri Helgason og Sigríður Thorlacius sem tekur bandið sitt, Heiðurspilta, með á rúntinn.
Snorri Helgason mun í vikuna senda frá sér sína fyrstu breiðskífu, I'm Gonna Put My Name on Your Door, en þar er Snorri einn á ferðinni með 11 popplög í blússkotnum og einföldum búningi. Frábærar lagasmíðar og einlægur og vandaður flutningur einkennir plötuna sem skilar sér svo um munar í tónleikaflutningi Snorra.
Sigríður Thorlacius & Heiðurspiltar hafa undnafarið vakið heilmikla lukka hjá land og þjóð, eða allt frá útkomu plötunnar Á Ljúflingshól sem inniheldur lög Jóns Múla Árnasonar. Hér þarf ekki að fjölyrða um gæði Sigríðar sem söngkonu en óhætt er að fullyrða að rödd hennar nær hvergi að njóta sín eins vel og á tónleikum.