Tónlistarmyndband sigraði stuttmyndasamkeppni Heiðarskóla
Stuttmynd sem var tónlistarmynd við lagið Söguleg stund bar sigur úr bítum á stuttmyndadögum unglingastigs Heiðarskóla á dögunum. Þetta var í þriðja sinn er keppnin er haldin. Nemendum var skipt í hópa innan hvers árgangs og fengu þeir tvo daga til að búa til myndband eftir ákveðnu þema. Þemað í ár var söguleg stund og áttu myndböndin að vera þrjár mínútur að lengd. Ákveðin skilyrði voru sett, til dæmis áttu allir hópmeðlimir að koma fram í myndbandinu, hluta myndbandsins átti að taka upp utandyra og á einhverjum tímapunkti átti einhver leikaranna að tala ensku með breskum hreim.
Nemendur voru áhugasamir og fljótir að sökkva sér í vinnu. Málefni líðandi stundar voru flestum hópum ofarlega í huga og skaut Sigmundur Davíð, fyrrum forsætisráðherra, víða upp kollinum. Myndböndin voru öll sýnd nemendum á unglingastigi og völdu þeir stuttmynd ársins. Þau Berglín, Bergþóra, Cazary, Einar, Elma, Emilía, Harun, Ragnar og Sara voru í hópnum sem sigraði í keppninni.
Á heimasíðu Heiðarskóla er frétt um verkefnið og linkar á öll myndböndin:
Hér má sjá sigurmyndbandið