Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónlistargleði með guðs orði
Laugardagur 6. maí 2017 kl. 06:00

Tónlistargleði með guðs orði

Queen-messa í Keflavíkurkirkju

Fjallræðan verður umfjöllunarefni Queen messu sem flutt verður í Keflavíkurkirkju þann 14. maí næstkomandi en þar mun Jón Jósep Snæbjörnsson, betur þekktur sem Jónsi í Svörtum fötum, flytja þekkt lög Queen við íslenska texta ásamt hljómsveit og Kór Keflavíkurkirkju.
Sóknarpresturinn Erla Guðmundsdóttir mun leggja stuttlega út frá stefum fjallræðunnar á milli laga en hún segir hugmyndina hafa kviknað fyrir þremur árum.

„Sú hugmynd að gera íslenska trúarlega texta við þekkta tónlist hljómsveitarinnar Queen kom frá kórfélögum fyrir nokkrum árum en kórinn hafði áður flutt messu með trúarlegum textum við lög U2 og Jesus Christ Superstar og komust færri að en vildu sem er skemmtilegt að segja frá. Kórinn vildi gera eitthvað afgerandi í tilefni af 500 ára siðbótarafmæliinu en árið 1517 hengdi munkurinn Martin Lúther 95 greinar á hallardyrnar í Wittenberg í Þýskalandi sem markaði upphaf siðbótarhreyfingarinnar. Fáir í nútímanum þekkja Lúther eða gera sér grein fyrir hversu mikilð velferðasamfélag okkar er byggt á honum. Því hvet ég fólk til að „googla“ kallinn og kynnast honum aðeins og hvað siðbótin var og er, “ segir Erla kankvís.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


En hvert er markmiðið með þessu framtaki og á popp erindi í kirkjuna?
„Svo sannarlega á popp erindi í kirkjuna. Lúther gaf góð ráð um það hvernig ætti að sigrast á erfiðleikum lífsins með lífsgleðinni. Lúther sagði að þegar þunglyndi og dimmir dagar sækja að eiga menn að grípa til lífsgleðinnar, borða vel og drekka, því djöfullinn ætti erfiðara með að glíma við þá sem væru með magann fullan af góðum mat og höfuðið fullt af skemmtilegum sögum. Tónlist, dans og íþróttir væru líka mikilvæg, enda sagði Lúther djöfulinn ekki þola að hjarta mannsins gleddist og sérstaklega þegar það tengist orði Guðs. Þetta var grundvallarafstaða hans til lífsins. Djöfullinn er nú ekki mikið í daglegri umræðu okkar en þetta með sönginn er svo satt. Hann er sáluhjálp”, segir Erla og tekur fram að söngurinn hafi alltaf verið einn af sterkum þáttum safnaðarstarfsins í Keflavíkurkirkju.
„Við eigum einn mesta og besta organista landsins, með fallegt trúarhjarta og drifkraft sem er öðrum hvatning og hefur leitt marga til bjartari daga í söng. Á Lúthersárinu er markmið Keflavíkurkirkju að leggja til tónlistargleði með Guðs orði og svo sannarlega verður enginn djöfull í kring,“ segir Erla og hlær.

Fjallræðan er umfjöllunarefnið, hvers vegna og hvert er innihald hennar?
„Þessi merkasta ræða allra tíma sem Jesús flutti á fjallinu er myndefni altaristöflunnar okkar í Keflavíkurkirkju. Því þótti okkur tilvalið að söngtextarnir myndu fjalla um hvert stef ræðunnar.
Hún er ekki mjög löng en afar innihaldsrík og rituð í 5 til 7. kafla Matteusarguðspjalls. Í fjallræðunni eru perlur sem margir kannast við eða þekkja. Eins og orðin um að við eigum ekki hafa áhyggjur af morgundeginum, því hann hafi sínar áhyggjur. Þar er gullna reglan sem hvetur okkur til að líta í eigin barm áður en við aðhöfumst gagnvart öðrum, einnig er tvöfalda kærleiksboðorðið þar að finna sem og orðin um hinn vangann og  dæmisöguna af húsunum á bjargi og sandi.”

Í fjallræðunni er að finna Faðir vorið, sjálfa bænina sem Jesús kenndi, sæluboðið og svo margt fleira og hvetur Erla fólk til að lesa þá ræðu þar sem hún hafi ráð við svo mörgu í andstreymi daganna.
„Ef við stöndum frammi fyrir erfiðleikum og vandasömum ákvörðum ættum við að lesa fjallræðuna, ef ekki aftur og aftur. Fjallræðan hefur að geyma meginatriðin í siðakenningu Jesú þar sem hann kemur fram með nýtt og mikilvægt viðhorf.”

Queen messan verður flutt tvisvar í Keflavikurkirkju, klukkan 17 og 20 og er miðaverð 1.500 krónur. Forsala miða fer fram í Keflavíkurkirkju og hjá kórfélögum en eins verður hægt að kaupa miða við innganginn.