Tónleikaröð mið- og framhaldsnemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Út þessa viku, dagana 28. mars til 1. apríl, stendur Tónlistarskóli Reykjanesbæjar fyrir sérstakri tónleikaröð þar sem fram koma nemendur í miðnámi og framhaldsnámi við skólann. Alls er um sex tónleika að ræða og nánari upplýsingar eru á Facebook og vefsíðu skólans.
Allir tónleikarnir verða í Bergi, tónleikasal skólans og Hljómahallar, og eru allir velkomnir. Tónleikunum verður jafnframt streymt á YouTube-rás skólans.
Skólinn hefur um langt árabil staðið fyrir sérstökum tónleikum framhaldsnámsnemenda en að þessu sinni verða semsé einnig tónleikar miðnámsnemenda og er tilgangurinn sá að hafa sérstakt frammistöðumat á tónleikum eða tónleikamat sem hluta af námsmati vetrarins hjá nemendum í þessum námsáföngum og verður námsmatið í formi umsagnar sérstakra umsagnaraðila úr hópi kennara skólans. Tónlistarskólinn hefur ekki áður haft frammistöðu nemenda á tónleikum sem sérstakan námsmatsþátt og það verður því áhugavert að sjá hvernig til tekst.