Tónleikar í Keflavíkurkirkju til styrktar orgelsjóð
Sunnudaginn 11. desember kl. 16 og 20 verður mikið um dýrðir í Keflavíkurkirkju. Þá koma börn úr kór Holtaskóla undir stjórn Guðbjargar Rutar Þórisdóttur og syngja aðventu- og jólalög ásamt kór Keflavíkurkirkju. Arnór Vilbergsson stýrir kór Keflavíkurkirkju og hefur hann einnig sett saman sjö manna strengja- og blásturssveit í tilefni dagsins. Óhætt er að lofa því að enginn verður ósnortinn af dagskrá þessari.
Verð á tónleikana er kr. 1500,-. Allur ágóðinn rennur í Orgelsjóð kirkjunnar en orgel kirkjunnar er komið mjög til ára sinna. Vert er að hafa það í huga hvern sess Keflavíkurkirkja skipar í sögu samfélagsins okkar hér Suður með sjó. Hún hefur mótað umgjörðina um stærstu stundir einstaklinga í bænum allt frá vöggu til grafar. Þar skiptir tónlistin miklu máli og nýtt orgel væri sannarlega kærkomið. Fyrst þarf þó að safna fyrir því og biðjum við bæjarbúa að hafa það í huga.
(Frétt frá Keflavíkurkirkju.)