Tölvur heilla þessa nemendur
FS býður upp á tvenns konar nám í tölvufræði fyrir áhugasama
Fjölbrautaskóli Suðurnesja býður upp á tvenns konar nám á tölvubrautum, annars vegar tveggja ára starfsnám á tölvuþjónustubraut og hins vegar þriggja ára nám til stúdentsprófs á tölvufræðibraut. Brautirnar skarast að hluta til en önnur er miðuð við undirbúning undir háskólanám í tölvunarfræði, hugbúnaðarverkfræði, verkfræði eða kerfisfræði en hin miðar að undirbúningi undir prófgráður atvinnulífsins eins og t.d. frá ComptTIA, Microsoft og Cisco.
Meginmarkmið brautanna er að nemendur fái góða undirstöðuþekkingu á sem flestum sviðum tölvutækninnar og öðlist færni sem nýtist þeim á vinnumarkaði og í áframhaldandi námi á þessu sviði. Það eru þrjár stúlkur á þessum námsbrautum en yfir fjörutíu drengir.
Við kíktum í kennslustund og fengum innsýn í námið þegar við hittum nokkra nemendur sem stunda nám á tölvubrautum skólans og tvo af kennurum þeirra.
Einar Örn Mikaelsson, 16 ára:
Læt ekki tölvuna stjórna mér
„Ég er að læra að setja upp netþjóna og stýrikerfi. Ég er á annarri önn á tölvuþjónustubraut en ég hef alltaf verið mikið í tölvuleikjum. Ég hef leikið mér að því að setja upp harðan disk, forsníða og forrita. Ég vil vinna við tölvur í framtíðinni því ég hef gaman af þeim og það væri flott markmið fyrir mig. Ég ætla að klára stúdentsprófið, svo langar mig að tengja þetta við kvikmyndaiðnaðinn en þar eru ótal margir möguleikar. Það er hægt að vinna við tæknibrellur í kvikmyndum, hljóð og að klippa. Þetta er mjög vítt svið og ótal tækifæri. Ég hef stjórn á tölvunotkun minni og læt tölvuna ekki stjórna mér. Mér finnst tölvan gott verkfæri til að skapa með og búa til. Ég hitti vina mína og við leikum okkur stundum saman í tölvunum. Tölva er ekki aðaláhugamálið því ég fer í ræktina á hverjum degi þegar ég get en ég vinn einnig aukavinnu hjá Nettó í Grindavík.“
Erna Rós Agnarsdóttir, 16 ára:
Ætla að verða ríkari en pabbi
„Ég er á tölvufræðibraut til stúdentsprófs. Um leið og ég er búin hér með FS þá ætla ég í háskólanám til Danmerkur. Mig langar í BS-gráðu í tölvunarfræðum. Stefnan er að taka við fyrirtækinu hans pabba og verða ríkari en hann en hann er kerfisfræðingur. Ætli ég verði ekki kerfisfræðingur líka. Ég var alltaf að leika mér með tölvur þegar ég var lítil hjá pabba, taka bilaðar tölvur í sundur, opna þær og skrúfa allt út úr þeim. Ég er stundum að vinna hjá pabba og aðstoða hann við að setja upp tölvur, laga tölvur fyrir kennara, setja upp router og fleira. Leiklist hefur samt líka heillað mig svo ég verð að sjá hvað verður í framtíðinni? En mér finnst mjög skemmtilegt að vera hér í þessu námi, á þessari námsbraut. Kennararnir eru líka mjög skemmtilegir finnst mér.“
Mikael Davíð Róbertsson, 17 ára:
Skemmtilegt þar sem er meira verklegt en bóklegt
„Ég er á tölvuþjónustubraut á annarri önn. Ég er búinn að læra ýmislegt um tölvur, bæði um það sem er innan í þeim og utan. Búinn að læra fullt um stýrikerfi í tölvum almennt. Stýrikerfið gerir tölvuna nothæfa fyrir almenning. Þegar ég var þrettán ára byrjaði ég í tölvuleikjum og að skoða netið en ég hef aldrei verið háður tölvum, ég fór bara í þær þegar mér leiddist. Ég hef alltaf haft stjórn á tölvunotkun minni. Mér fannst þessi braut áhugaverðust af því námi sem var í boði í FS og duga mér inn í framtíðina. Ég er ekki 100% viss um hvað ég vill verða, er ennþá að leita og sjá í hverju ég er góður. Það er gaman að vera á svona braut þar sem er meira verklegt en bóklegt. Mér finnst kennararnir mjög góðir í að útskýra en það fer líka eftir okkur hvort við erum dugleg að hlusta á þá.“
Richard Dawson Woodhead, 18 ára:
Draumurinn er að búa til tölvuleiki
„Ég útskrifast í vor sem stúdent af tölvufræðibraut og hef gríðarlegan áhuga á tölvuleikjum og forritun. Draumurinn er að búa til tölvuleiki. Ég hef verið að spila tölvuleiki síðan ég man eftir mér. Ég fór í tölvuleik þegar mér leiddist en ég kaus frekar að vera með vinunum ef einhver var heima. Við lékum okkur þá einnig saman í tölvum. Ég les bækur og hlusta á bækur og sögur þegar ég er úti að labba en ég fer mikið út. Ég þekki þessi mörk sem þarf í tölvunotkun. Ég hef mikinn áhuga á íslensku tungumáli og finnst mikilvægt að varðveita þetta tungumál sem við Íslendingar tölum því við erum svo fá sem kunnum að tala íslensku. Ég legg mig fram um að tala rétt. Ég á samt vini sem eru íslenskir en tala saman á ensku því þeim finnst það betra. Þeir eru vanir tölvuleikjum sem fara fram á ensku og orðaforðinn þaðan hefur áhrif á þá og þeim finnst betra að tjá sig á ensku. Stefna mín er að fara í framhaldsnám í Háskólanum í Reykjavík því þar er boðið upp á vinnunám hjá t.d. tölvufyrirtækinu CCP en ég stefni á forsetastyrk hjá HR og veit að ég á góða möguleika því ég legg mig allan fram í námi.“
Hvað segja kennararnir um tölvubrautirnar í FS?
Nemendur komast fljótt að því að hér erum við ekki að leika okkur
Við hittum að máli þau Rósu Guðmundsdóttur og Gísla Frey Ragnarsson sem kenna á þessum námsbrautum.
„Ég hef verið tölvunörd síðan 1987 þegar ég fékk tölvu í fermingargjöf en áhuginn hafði kviknað fyrr samt. Ég lærði upphaflega rafeindavirkjun og fór þannig inn í tölvubransann. Vann svo í tölvugeiranum í mörg ár við ýmis störf er tengjast tölvum, kerfisstjórnun og kerfisrekstri. Ég var alltaf eina stelpan á verkstæðinu og einnig í náminu, það virðist ætla að breytast seint því enn eru sárafáar stelpur sem sækja í tölvu- og tækninám. Ég vann í mörg ár, bæði hér heima og erlendis, að málum sem tengjast tölvurekstri og þjónustu sem snýr að fyrirtækjum sem og einstaklingum. Svo sérhæfði ég mig í upplýsingatækni í kennaranáminu en það lá beinast við og tók loks meistaragráðu í fjarkennsluhönnun. Þegar ég eignaðist dætur mínar þá fannst mér tími til kominn að breyta til og fór að kenna sem er mun fjölskylduvænna en oft þarf að vinna á kvöldin og á nóttunni í tölvubransanum enda margt sem snýr að kerfisrekstri fyrirtækja sem ekki er hægt að uppfæra eða breyta á meðan fólk er í vinnunni,“ segir Rósa.
„Ég aftur á móti kláraði stúdentspróf í viðskipta- og hagfræði og fór svo í tölvunarfræði í Háskóla Íslands. Ég held að það sé frekar sjaldgæft að tölvunarfræðingar fari í kennararéttindanám, þeir fara yfirleitt út í tölvubransann sjálfan því oftast er nóg um atvinnu og launin geta verið mjög fín. Mig langaði að fara í kennslu og líkar vel við það,“ segir Gísli Freyr.
Hvað læra nemendur hjá ykkur?
„Hingað koma margir nemendur sem hafa mikinn áhuga á tölvuleikjum og halda sumir í upphafi að hér sé verið að leika sér en komast fljótlega að því að svo er ekki. Þá hætta einhverjir yfirleitt um áramót og velja sér aðra braut í skólanum. Langflestir eru þó með metnað, vilja læra meira í tölvufræðum og er alvara með námið. Við kennum þó mjög breiðan grunn í forritun, vefforritun, tölvutækni og kerfisfræði ásamt því að vera með kennslu í tölvuleikjagerð sem er mjög vinsæl hjá nemendum. Nemendur sem útskrifast frá okkur á tölvufræðibraut koma mjög vel undirbúnir í áframhaldandi nám á háskólastigi og við kennum meðal annars tvo áfanga í samstarfi við HR þannig að þeir nemendur sem taka þá fá einingarnar metnar þar inn og þurfa því ekki að sitja í grunnáföngum í forritun.
Hér eru þau að læra svo margt sem víkkar út þekkingu þeirra. Þau sem leggja sig fram og virkilega grípa þekkinguna eru að opna möguleika sína því framtíðin verður mun tæknivæddari en flestir gera sér grein fyrir. Stúdentspróf af tölvubraut opnar margar dyr til áframhaldandi náms í ýmsum raungreinum eins og tölvunarfræði og verkfræði,“ segir Rósa.
„Tölvubransinn hefur breyst mikið og þróast en í dag gengur þetta mikið út á teymisvinnu. Þú getur auðvitað unnið einn og sumir eru þar en yfirleitt þarftu að geta unnið með öðrum. Félagsþroski skiptir miklu máli, að vinna í hóp að hugmyndum saman,“ segir Gísli Freyr.
„Já, félagsfærni skiptir máli og framhaldsskólaárin eru mikilvæg þegar kemur að þroskaferli ungmenna því þá þjálfa nemendur þessa þætti einnig í fari sínu ásamt því að taka út mikinn þroska. Á aldrinum sextán til tuttugu ára er ungt fólk mjög móttækilegt og það eru hrein og bein forréttindi að fá að vinna með þeim á þessu mikilvæga mótunarskeiði,“ segir Rósa.