Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Tökum á móti hlýjum vorvindum
Föstudagur 9. maí 2008 kl. 14:15

Tökum á móti hlýjum vorvindum

Tónlistarfélag Reykjanesbæjar fagnar sumri með einstökum listamönnum. Að þessu sinni er á ferð tríó skipað tónlistarmönnunum Birni Thoroddsen, gítarleikari, Andreu Gylfadóttur, söngkona og Jóni Rafnssyni, bassaleikara. Tónleikarnir fara fram föstudaginn 16. maí, kl. 20:00 í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus húsum.

Vorið 2006 kom út diskurinn Vorvindar þar sem tríó Björns Thoroddsen og Andrea Gylfadóttir fluttu þekkt lög sem fylgt hafa íslensku þjóðinni í áratugi. Þessi diskur hlaut afskaplega góða umsögn og viðtökur og var honum síðan fylgt eftir með diskinum Vorvísur sem kom út í maí 2007.

Nöfn beggja diskanna vitna í vorið og er það vel við hæfi, því í mörgum þessara laga, sem hafa fyrir löngu fest sig í sessi hér á landi, hvort sem þau eru íslensk eða ekki, er vor- og sumarrómantíkin allsráðandi. Lögin eru flest frá seinustu öld, og þá frekar frá fyrri parti aldarinnar, og má til dæmis nefna lög eins og Vorvindar glaðir, Hafið bláa hafið, Hlíðin mín fríða, Blátt lítið blóm eitt er, Sprettur , Smaladrengurinn, Mér um hug og hjarta nú, Geng ég fram á gnýpur, Heiðlóukvæði, Vér göngum svo léttir, Góða tungl o.s.frv.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björn Thoroddsen hefur verið fremstur meðal jafningja í íslenskum jazzi í meira en tvo áratugi og Andrea Gylfadóttir hefur verið ein af okkar ástsælustu söngkonum til margra ára. Hún hóf sinn feril með hljómsveitinni Grafík, en hefur starfað einna lengst með hljómsveitinni Todmobil. Jón Rafnsson hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi síðastliðin ár, og leikur m.a. í tríóinu Guitar Islancio ásamt Birni Thoroddsen.


Aðgangur er frír fyrir félagsmenn Tónlistarfélagsins.

Þeir sem áhuga hafa á að ganga í félagið ættu að nota tækifærið á þessum tónleikum þar sem allir nýir félagsmenn fá frítt inn á þessa frábæru tónleika.

Sala aðgöngumiða fyrir aðra en félagsmenn fer fram í Listasafni Reykjanesbæjar í DUUS húsum á opnunartíma safnsins sem er alla daga kl. 13:00 -17:00, auk þess er hægt að hringja inn í síma 421 3796.
Miðaverð er 1000.-

Bestu kveðjur – sjáumst á tónleikum!
Stjórn Tónlistarfélags Reykjanesbæjar