Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tökum á móti birtu jólanna
Sr. Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir prestur í Njarðvíkurkirkju.
Mánudagur 24. desember 2018 kl. 07:00

Tökum á móti birtu jólanna

Jólahugvekja Sr. Brynju Vigdís Þorsteinsdóttur prests í Njarðvíkurkirkju

Bæði innandyra og utan fer allt að taka á sig jólalegri brag. Í garð er að ganga hátíð ljóss og fríðar, tíminn þegar við minnumst sögunnar um nýfædda barnið í Betlehem. Sögunnar sem við höfum flest öll heyrt svo oft áður en verðum aldrei þreytt á að heyra, lesa eða tala um því ár hvert er eitthvað nýtt og spennandi í sögunni.

Það er oft talað um aðventuna sem ferðalag, ferðalag frá hversdagsleikanum til jólahátíðar.  Þar sláumst við í för með þeim Maríu og Jósef sem lögðu nauðug af stað til skrásetningar að skipan keisarans. En við leggjum upp í ferðina af fúsum og frjálsum vilja, því við þekkjum leiðina, við þekkjum áfangastaðinn, sem alltaf er sá sami og við vitum hvað bíður okkar þar. Fjárhúsið þar sem lítill drengur var vafinn reifum og lagður í jötu. Við upplifum undrið stórkostlega, enn og aftur og við tökum þátt í fögnuði á himni og á jörðu, fögnuði englanna, fjárhirðanna og vitringanna. Við vitum að litla barnið í jötunni hefur óendanlega mikla þýðingu fyrir líf okkar og fyrir alla heimsbyggðina. Við kveikjum á aðventuljósum í eftirvæntingu fyrir því sem jólin færa okkur, fæðingu Jesúbarnsins og frið með mannkyninu sem Guð elskar.
Í jólaguðspjallinu, textanum um litla barnið sem fæddist í Betlehem erum við ár hvert minnt á þann stórkostlega kærleika sem kom í heiminn. Með fæðingu frelsarans erum við minnt á það sem er mikilvægast og jafnframt dýrmætast í lífi hverrar manneskju en það eru tengsl og samskipti við aðra. Hvernig samskiptum okkar er háttað við aðrar manneskjur skiptir máli.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gleði og sorg

Að við getum deilt tilfinningum okkar, deilt gleði og sorg, deilt vanmætti og sigrum með öðrum. Að við stöndum ekki ein, því hver sem þekkir það að standa einn veit að sú tilfinning er erfið. Þegar tími aðventu og jóla rennur upp er það tími sem hjá flestum einkennist af samskiptum við fólkið okkar og á sama tíma endurnýjum við gjarnan kynnin við gamla kunningja með jólakortaskrifum eða jólakveðjum, hvort heldur er á samfélagsmiðlum eða í útvarpi. Já, við hugsum til fólksins okkar og njótum þess að vera með þeim sem okkur þykir vænt um. Á þessum tíma förum við gjarnan að hugsa um það hvernig tengsl okkar og samskipti eru við aðra, við endurskoðum og endurnýjum. Flest okkar ganga til móts við jólin með birtu og hlýju í hjarta. Gleymum samt ekki þeim sem eru sorgmæddir um jól. Við erum nefnilega oft á þessum tíma einnig minnt á sorg og söknuð. Þessi tími getur verið erfiður fyrir suma um leið og hann er svo gleðilegur fyrir aðra. Um jól magnast þessi söknuður til þeirra sem við höfum misst og elskað, þeirra sem við þráum samveru með á þessum tíma, nærveru og samskipti.  

Sýnum öðrum umhyggju

Hlúum því hvert að öðru, sjáum fólkið í kringum okkur og reynum að horfa eftir því hvers það þarfnast. Þarf það faðmlag eða hlýlegt bros? Það getur breytt miklu fyrir þann sem ekki líður vel. Kjarninn í fagnaðarerindi jólanna og það mikilvægasta er kærleikurinn. Kærleikur sem verður til í samskiptum manna á milli og við Guð. Litla barnið sem fæddist í Betlehem kom í heiminn með nýtt upphaf, kærleika Guðs til okkar mannanna. Kærleikur sem gerir okkur mönnum kleift að eiga góð samskipti, samveru og samfélag.
Munum eftir því að njóta góðra og heiðarlegra samskipta við fólkið okkar nær og fjær.  Því í gegnum samskipti og samveru sýnum við kærleika. Til þess höfum við óþrjótandi tækifæri, við þurfum bara að sjá þau og nýta okkur þau. Það er boðskapur jólanna.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og kærleiksrík samskipti og samverustundir á komandi ári.

Sr. Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir prestur í Njarðvíkurkirkju