Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tók fram pensilinn að nýju fyrir þremur árum
Pálmar Örn Guðmundsson er heldur sína aðra málverkasýningu um þessar mundir. VF-Myndir/JJK
Fimmtudagur 14. mars 2013 kl. 07:25

Tók fram pensilinn að nýju fyrir þremur árum

Pálmar Guðmundsson með málverkasýningu í verslunarmiðstöðinni í Grindavík

Grindvíkingurinn Pálmar Örn Guðmundsson stendur fyrir málverkasýningu á annarri hæð í verslunarmiðstöðinni í Grindavík á meðan á Menningarviku Grindavíkur stendur. Pálmar er hæfileikaríkur frístundamálari og er þetta önnur málverkasýningin sem hann stendur fyrir. Grindavíkurbær og umhverfi hans er allsráðandi í verkum Pálmars sem er að feta sín fyrstu spor sem málari. Hann starfar sem kennari og þjálfar einnig yngri flokka hjá Grindavík í knattspyrnu.

„Ég byrjaði að mála síðla árs 2009. Ég teiknaði mikið sem barn og þótti efnilegur en hætti því eiginlega eftir tíunda bekk. Á þeim tíma taldi ég mig ekki eiga mikla framtíð í myndlist. Ég tók svo upp þráðinn á ný fyrir þremur árum. Ég hélt mína fyrsta málverkasýningu fyrir ári síðan og viðbrögðin voru mjög góð,“ segir Pálmar. Hann er sjálflærður málari en íhugar að mennta sig frekar í myndlist.

Pálmar hefur aðallega sérhæft sig í grindvískum húsa- og landslagsmyndum úr akrýl og notar hann ljósmyndir sem fyrirmyndir en segist ýkja þær nokkuð og leika sér með fyrirmyndina.

„Það eru tíu ný verk til sýnis á þessari sýningu. Meginstefið er Grindavíkurbær og nærumhverfi hans. Ég er uppalinn í Grindavík og það er gott fyrir mig að spreyta mig á götumyndum og landslagi sem ég þekki vel. Ég sé fyrir mér að halda áfram að mála í svipuðum stíl en færa mig kannski meira út á Reykjanesið sem er að mínu mati falin perla.“

Hefur fengið frábær viðbrögð

Sýning Pálmars stendur yfir fram yfir helgi þegar Menningarvikunni í Grindavík lýkur. Fjölmargir hafa nú þegar litið við á sýningunni og að sögn Pálmars hafa viðbrögðin verið mjög góð. „Ég minnkaði við mig kennslu í vetur til að hafa meiri tíma til að mála. Ég er stundum hálf orðlaus fyrir viðbrögðum fólks sem hefur komið að máli við mig. Þetta er mikil hvatning fyrir mig.“

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá er gamli bæjarhlutinn í Grindavík ásamt hafnarsvæðinu í forgrunni á sýningunni. Öll málverkin á sýningunni eru til sölu á hóflegu verði. Hægt er að kynna sér verk Pálmars betur með því að líta við á sýningu hans eða með því að fara á Facebook-síðu hans, www.facebook.com/PalmarArt.


Mynd af Þorvaldsstöðum á Vesturbrautinni í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Gamli bærinn í Grindavík er fyrirferðamikill í verkum Pálmars. Hér er mynd af húsum við Ægisgötu og Túngötu.



Mynd af hafnarsvæðinu í Grindavík.


Pálmar segist ætla að mála meira af náttúrunni á Reykjanesi í framtíðinni.