Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Töfrum líkast hvernig lag varð til
Grétar og Kristín
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 26. febrúar 2023 kl. 07:00

Töfrum líkast hvernig lag varð til

Systkinin Grétar og Kristín sömdu lag og texta í sitthvoru lagi án vitneskju um að hinn aðilinn væri að semja.

„Ég grét úr mér augun og teygði mig svo í gítarinn og rifjaði upp stefið sem ég hafði spilað inn á símann deginum áður og það smellpassaði við textann,“ segir grindvíski tónlistarmaðurinn Grétar Lárus Matthíasson, sem gaf út sitt fyrsta lag á dögunum. 

Lagið heitir Barnið mitt en Kristín systir hans samdi textann. „Ég var ekki með neitt í huga en fann svo þegar ég var að fara að sofa að andinn var að koma yfir mig,“ segir hún. Textann samdi hún eftir að hafa hitt Grétar bróður sinn en fyrr um daginn hafði hann fengið hugmynd að lagi. Hvorugt systkinanna vissi af sköpun hins og lag og texti féllu eins og flís við rass.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grétar sem hefur hingað til verið meira þekktur sem gítarleikari, er nýlega byrjaður að gera meira með þá tónlist sem hann hefur samið í gegnum tíðina. Hann fékk fjóra hljóðverstíma í afmælisgjöf frá kærustunni sinni, í stúdíó Paradís sem er í Sandgerði og er í eigu feðganna Jóhanns Ásmundssonar og Ásmundar Jóhannssonar. Við það virtist eitthvað losna úr læðingi, fjórir hljóðverstímarnir eru orðnir að hátt í þrjátíu og nokkur lög bíða útgáfu en allt í allt eru lögin orðin það mörg að þau fylla plötu. Sagan á bak við þetta fyrsta lag sem Grétar gefur út er ansi mögnuð. Fyrr um daginn hafði Grétar fengið hugmynd að lagi í kollinn, tók það upp á símann sinn og viti menn, lagið smellpassaði við textann.

Ótrúleg atburðarás

Grétar fór yfir þessa ótrúlegu atburðarás. „Ég kíkti í heimsókn til Kristínar systur í nóvember, við vorum ekki búin að hittast í svolítinn tíma en ég bý á Selfossi, hún í Grindavík. Ég tók gítarinn með mér og við ræddum um daginn og veginn eins og gengur og gerist. Á einhverjum tímapunkti skaut lagahugmynd upp í kollinn á mér. Ég spilaði hana inn á símann minn svo ég myndi ekki gleyma laginu, Kristín var ekki viðstödd á meðan ef ég man rétt. Við héldum áfram að spjalla og Kristín sagði mér að hún hefði tekið mömmu og frænku okkar í heilun deginum áður og spurði hvort hún mætti líka heila mig. Ég hélt það nú og lagðist á bekkinn hjá henni, ég hafði aldrei áður prófað þetta og fannst þetta mögnuð upplifun, fann mikinn hita í líkamanum og vellíðunartilfinningu. Eftir heilunina borðuðum við kvöldmat og svo fór ég heim á Selfoss. Morguninn eftir var ég úti í bílskúr með gítarinn þegar Kristín hringir. Hún sagðist hafa samið texta sem hún yrði að fá að senda mér og sagði að ég þyrfti að semja lag við textann. Hún sagðist hafa samið textann út frá mínu hjarta, hugmyndin hefði fæðst kvöldið áður og hún hefði klárað textann þegar hún vaknaði. Hún sagði mér að textinn fjallaði um barnsmissinn en ég missti annan tvíburann minn árið 2008. Berta Sóley og Elsa Björt fæddust fyrir tímann, fengu mikla sýkingu og því miður þá lifði Elsa ekki af. Ég las textann og brotnaði algerlega saman, þetta var eins og talað úr mínu hjarta. Ég grét úr mér augun og teygði mig svo í gítarinn og rifjaði upp stefið sem ég hafði spilað inn á símann deginum áður og það smellpassaði við textann. Lagið kláraðist á fimm mínútum eftir þetta, ótrúleg lífsreynsla.“

Afmælisgjöf frá kærustunni

Grétar lærði ungur að spila á gítar og er mjög frambærilegur sem slíkur, hefur spilað með mörgum tónlistarmönnum í gegnum tíðina og er þessa dagana að undirbúa 80’s-tónleika í Hörpu með söngkonunni Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur. Undanfarin ár hefur hann gert meira af því að syngja og koma fram sem trúbador en það er ekki fyrr en nú sem hann gerir meira við þá tónlist sem hann hefur samið í gegnum tíðina. „Ég hef alltaf eitthvað verið að semja, fann t.d. tuttugu ára gamalt demó um daginn. Ég hef bara aldrei gert neitt meira við þetta og það var ekki fyrr en í ágúst í fyrra þegar ég átti afmæli og Karen Dögg, unnusta mín, gaf mér fjóra stúdíótíma, sem eitthvað losnaði úr læðingi. Ég var þá með lag í huga sem við tókum upp en svo hafa þau komið eitt af öðru og ég er í raun kominn með efni á heila plötu. Venjulega kemur lagahugmyndin fyrst og svo sem ég textann en ég mun pottþétt prófa hina leiðina líka. Hvernig þetta lag, Barnið mitt, varð til er mér hulin ráðgáta en svona gerast töfrarnir stundum og við systkinin munum pottþétt gera meira saman í tónlistinni í framtíðinni,“ sagði Grétar.

Systkinasamstarf

Kristín sem hafði aldrei verið viðloðandi tónlist á neinn hátt, kom mörgum í opna skjöldu þegar hún skaust fram á sjónarsviðið fyrir stuttu sem fullskapaður laga- og textahöfundur. Hún hefur verið að semja fyrir Kvennakór Grindavíkur að undanförnu og verða lögin frumflutt á tónleikum þann 12. mars næstkomandi. „Ég get ekki útskýrt þetta, allt í einu kom þessi gáfa til mín og ég gat farið að semja lög og texta. Lögin koma einhvern veginn til mín, ég kann ekki að spila á neitt hljóðfæri svo ég get ekki skýrt þetta almennilega út. Það gerðist eitthvað magnað á milli okkar Grétars þennan dag. Ég var ekki með neitt í huga en fann svo þegar ég var að fara að sofa að andinn var að koma yfir mig. Ég er alltaf með stílabók við hendina og fyrsta erindið fæddist um kvöldið áður en ég sofnaði og þegar ég vaknaði fann ég að ég þyrfti að klára þetta og hætti ekki fyrr en allur textinn var kominn. Þetta er í raun alveg mögnuð tilfinning, ég finn að ég þarf að túlka þessar tilfinningar og losna í raun ekki úr þessu ástandi fyrr en textinn er fæddur. Þannig var þetta þennan umrædda morgun og ég hringdi í Grétar um leið og textinn var fæddur og hér erum við í dag, með þetta æðislega lag Grétars við textann minn. Við eigum svo sannarlega eftir að gera meira saman í tónlistinni í framtíðinni,“ sagði Kristín að lokum.

Trúbadorinn Grétar
Grétar í heilun hjá Kristínu
Grétar og Berta Sóley

Grétar með dætrum sínum, Bertu Sóleyju og Elsu Kristínu, við leiði Elsu Bjartar.

Grétar og fjölskylda:, f.v.: Grétar, Berta Sóley Grétarsdóttir, Anita Björt Arnarsdóttir, Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir og Elsa Kristín Grétarsdóttir.