Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tíu milljónir til góðra málefna - sjáið myndirnar frá Oktoberfest
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 11. nóvember 2021 kl. 13:26

Tíu milljónir til góðra málefna - sjáið myndirnar frá Oktoberfest

Oktoberfest Blue Car Rental fór fram í húsnæði fyrirtækisins að Hólmbergsbraut. Fór sprautu- og rúðuverkstæði fyrirtækisins í gegnum allsherjar umbreytingu og þegar búið var að klæða veggi og loft með dúkum og setja inn svið, bari, trébekki og borð og skreyta salina mátti varla sjá að þar væri rekið eitt stærsta sprautuverkstæði á Suðurnesjum. Dagskrá kvöldsins var öll hin glæsilegasta en fyrir utan atriði frá gestgjöfunum sjálfum mætti Leikfélag Keflavíkur með Rúnna Júl syrpu, Skítamórall tróð upp og að lokum spilaði hljómsveitin Albatross fyrir dansi. Veislunni var stýrt af heimamanninum Örvari Kristjánssyni og þá sá Magnús Þóris og hans fólk á Réttinum um að fólk færi ekki svangt heim.

Magnús Sverrir var að vonum ánægður með vel heppnað Oktoberfest þegar Víkurfréttir tóku hann tali í kjölfar hátíðarinnar. „Oktoberfestið okkar er í raun hátíð fyrir fólkið sem stendur okkur næst, samstarfsmenn og samstarfsaðila. Við fengum þessa hugmynd fyrir þremur árum þegar við fórum nokkrir félagar til München í Þýskalandi. Þar keyptum við ekta Lederhouser-búning eins og túristum ber að gera og fórum í stóran bjórgarð þar sem stemmningin var í anda Oktoberfest. Þar myndaðist ákveðin stemmning og gleði sem við vildum svo reyna að leika eftir auk þess sem við urðum auðvitað að finna not fyrir búninginn þegar heim væri komið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Oktoberfest Blue Car Rental í ár var „Góðgerðarfest“ þar sem fyrirtækjum og einstaklingum bauðst að taka þátt í að styðja góð og þörf málefni í nærsamfélagi Blue Car Rental en fyrirtækið leggur gríðarlega mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð sinni og er duglegt að styðja við bakið á hinum ýmsu málefnum. 

Í aðdraganda kvöldsins og á kvöldinu sjálfu söfnuðust alls tíu milljónir króna frá fyrirtækjum og einstaklingum. Var sú upphæð látin renna til sex aðila að þessu sinni; Minningarsjóðs Ölla, Minningarsjóðs Ragnars Margeirssonar, Velferðarsjóðs Suðurnesja, Hæfingastöðvarinnar, fæðingadeildar HSS og Gleym mér ei. 

„Þegar við fórum af stað með þessa hugmynd renndum við svolítið blint í sjóinn. Ég taldi raunhæft að safna um tveimur til þremur milljónum en það var fljótt ljóst að við myndum ná miklu hærri upphæð en það. Við hjónin og starfsmenn fyrirtækisins erum auðvitað gríðarlega þakklát öllum þeim sem komu að þessu með okkur með einum eða öðrum hætti og hjálpuðu okkur þannig að gera þetta „Góðgerðarfest“ að veruleika. Við erum í senn stolt og snortin og deginum ljósara að þetta verður gert aftur að ári,“ segir Magnús Sverrir.

Meðfylgjandi eru myndir frá afhendingu styrkjanna og síðan myndasyrpa frá Oktoberfest-inu góða.

Sendiherrar Minningarsjóðs Ölla, frændsystkinin Sigþór Birmingham, Emma Karen Þórmundsdóttir, Þórdís Kara Sigurðardóttir með Magnúsi Sverri.

Fulltrúar aðilanna sem fengu styrk með eigendum og stjórnendum Blue Car Rental, Guðrúnu Sædal Björgvinsdóttur, Magnúsi Sverri og Þorsteini Þorsteinssonum.

Oktoberfest Blue Car 2021