Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tískuljósmyndari sem teiknar dýr
Drífa Þöll Reynisdóttir.
Miðvikudagur 21. maí 2014 kl. 14:21

Tískuljósmyndari sem teiknar dýr

- Njarðvíkingurinn Drífa Þöll er efnileg listakona

Drífa Þöll Reynisdóttir er 23 ára ljósmyndari frá Njarðvík. Hún hefur frá því að hún útskrfaðist frá FS á sínum tíma m.a. búið í Frakklandi, Noregi og Englandi en þar leggur hún nú stund á nám í ljósmyndun. Áhugi Drífu á ljósmyndun kviknaði fljótlega eftir fermingu en þá keypti hún sér litla myndavél sem hún notaði óspart. „Ég man eftir því að vera að leika mér með frænku minni þar sem ég stillti henni upp og tók mynd af henni. Þessi mynd sat í mér, mér fannst hún heppnast svo vel,“ segir Drífa sem alltaf hefur verið listræn og skapandi. Ljósmyndun varð enn eitt formið sem hún tileinkaði sér, en einnig hefur hún verið dugleg við að teikna.

Áhuginn kviknaði fyrir alvöru í FS

Þegar Drífa hóf nám í FS þá fékk hún sína fyrstu DSLR myndavél. Þá kviknaði ljósmyndaáhuginn fyrir alvöru. Drífa var dugleg að fikta með vélina og prufa sig áfram með vinkonur sínar til aðstoðar sem módel. Drífa var í ritstjórn skólablaðsins Vizkustykkis á þeim tíma og tók m.a. fjölda mynda fyrir blaðið. Eftir skólagönguna í FS sótti hún svo um í skóla í Noregi sem heitir Norsk Fotofagskole í Þrándheimi og komst þar inn. Þar stundaði hún nám í tvö ár en nú heldur hún til á Englandi í frekara námi. Nánar til tekið í Art University of Bournemouth þar sem hún er á öðru ári í  BA námi í auglýsingaljósmyndun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mér finnst langskemmtilegast að taka tískumyndatökur, ég hef alltaf verið heilluð af þeirri hlið ljósmyndunar. Helst þá svona tískuþættir, þar sem maður getur verið skapandi og sagt sögur með því að setja saman nokkrar myndir,“ segir Drífa en hún heillast af því að notast við landslag þegar slíkar myndatökur fara fram.

Drífu langaði að sýna samnemendum sínum á Englandi landslagið á Íslandi og fyrir jól tók hún myndaröð við Bláa lónið sem vakti mikla lukku. „Ég fékk leyfi til þess að taka myndir ofan í Lóninu sem var æðislegt. Ég fékk að standa fyrir ofan og stelpurnar voru í vatninu. Við tókum þessar myndir á tveimur dögum þar sem það var ekki mikið dagsljós um miðjan desember,“ segir Drífa en myndaröðina fékk hún svo birta hjá tímariti sem heitir, The lone wolf magazine.
Teiknar flottar dýramyndir

Drífa hóf að teikna svokallaðar ink art myndir fyrir skömmu en þær eru afar vinsælar um þessar mundir. Á sínum yngri árum þótti Drífu skemmtilegast í listáföngum í skólanum en hún hefur alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa. Drífa segist hafa fengið góð viðbrögð við teikningum sínum á facebook en þar eru verk hennar til sölu. (https://www.facebook.com/drifareynis.)

Forvitnilegt verður að fylgjast með þessari efnilegu listakonu í framtíðinni en Drífa var svo væn að deila verkum sínum með lesendum Víkurfrétta eins og sjá má. Þeir sem vilja kynna sér verk hennar betur er bent á heimasíðu hennar http://drifareynis.com/.

Teikningar eftir Drífu hafa vakið nokkra athygli.