Tímarit Víkurfrétta kemur út á morgun
Tímarit Víkurfrétta, TVF, kemur út á morgun. TVF er ótrúlega efnismikið að þessu sinni og jafnframt er blaðið fjölbreytt og troðfullt af máli og myndum. Grípum aðeins niður í ritstjórnarpistil Bryndísar Jónu Magnúsdóttur, ritstjóra TVF:
„Það er sjálfsagt alveg sama hvar maður drepur fæti í heiminum, alls staðar eru Suðurnesjamenn, hvort sem þeir hafa sest þar að eða komið sem gestir í lengri eða skemmri tíma. Hvaðan ætli þetta flökkueðli komi? Er það víkingablóðið? Kannski nálægðin við flugvöllin? Ja, hvað sem því líður eru það Suðurnesjamenn erlendis sem setja ákveðinn svip á þetta sumartölublað TVF.
Við tókum m.a. púlsinn á námsmönnum í Kaupmannahöfn, systrunum Brynju Björk og Hörpu Lind í Osló og Stokkhólmi, matarljósmyndaranum og verðlaunahafanum Ragnari Friðrikssyni í Frakklandi og grindvískum kráareigendum á Jótlandi.
Við höfðum einnig uppá Suðurnesjafólki með erlendan uppruna og forvitnuðumst um það hvað dró það hingað til lands.
Guðrún Ágústa leiðir lesendur TVF inn í djúpa dali geðhvarfssýki en sjúkdómurinn hefur hrjáð hana í nokkur ár. Hún leitar styrks í Björginni í Njarðvík þar sem öflugt og gott starf er unnið undir stjórn Ragnheiðar Sifjar Gunnarsdóttur. Blaðamenn TVF taka ofan fyrir Guðrúnu fyrir að segja svo umbúðalaust frá reynslu sinni en geðheilsuvandamál hafa löngum verið tabú.
Kristín Kristjánsdóttir og Ragnhildur Steinunn hafa lifibrauð sitt af skemmtana- og afþreyingaiðnaðinum, Kristín sem förðunarfræðingur og Ragnhildur sem sjónvarps- og leikkona. Kristín hefur á stuttum tíma orðið ein vinsælasta sminka „fræga fólksins“ og senn líður að frumsýningu bíómyndarinnar Astrópíu en Ragnhildur fer með aðalhlutverkið í henni.
Blaðið prýða þar að auki námshestar, íþróttafólk, leikarar, lista- og athafnamenn, svo fátt eitt sé nefnt.
Ég bið ykkur, kæru lesendur, að njóta sumarsins því það er stutt! Auk þess vona ég að þið hafið gaman af því að glugga í þetta fjölbreytta sumareintak TVF. Endilega sendið okkur ábendingar um áhugavert efni í næstu blöð og hikið ekki við að benda okkur á það sem við gerum vel og það sem má betur fara!
Bryndís Jóna Magnúsdóttir“