Tillögur Ungmennaráðs Reykjanesbæjar meira „inná við“
Ungmennaráð Reykjanesbæjar lagði fram margar hugmyndir að málefnum og þáttum sem það vill að fái meiri áherslu og athygli bæjaryfirvalda á fundi með bæjarstjórn Reykjanesbæjar fyrir bæjarstjórnarfund sl. þriðjudag.
Sex ungmenni héldu ræðu á fundinum með bæjarstjórn þar sem þau reifuðu ýmsar hugmyndir og málefni sem þau töldu mikilvæg. Meðal þess sem þau nefndu voru málefni strætó, fjármálakennsla, aðgengismál fatlaðra, mataræði og nestismál í skólunum, sjálfsstyrkinganámskeið, læknisþjónusta vegna andlegra veikinda og flokkun sorps, svo nokkur dæmi séu tekin.
Bæjarfulltrúar sem komu í pontu eftir ræður ungmennanna sögðu annan tón í þeim en áður. Innihald þeirra væri meira inná við eins og þeir orðuðu það, þ.e. málefni sem tengdust þeim meira beint. Bæjarfulltrúar komu flestir í pontu og hrósuðu krökkunum fyrir frábærar ræður og sögðu að fundur með þeim væri einn sá skemmtilegasti sem þau sætu.
Þeir sem fluttu ræðu úr Ungmennaráði voru eftirtalin:
Sólborg Guðbrandsdóttir, fulltrúi nemenda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Berglín Sólbrá Bergsdóttir, fulltrúi nemenda í Heiðarskóla
Katla B. Ketilsdóttir, fulltrúi nemenda í Holtaskóla og varaformaður Ungmennaráðs
Jón Ragnar Magnússon, fulltrúi nemenda í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Páll Orri Pálsson, fulltrúi nemenda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og formaður Ungmennaráðs
Emilia Björt Pálmarsdóttir, fulltrúi nemenda í Heiðarskóla.
Á næstu dögum munum við birta ræður ungmennanna hér á vf.is.