Þynnkuborgarar áfram í boði í Keflavík
Brautarnesti við Hringbraut í Keflavík er elsta starfandi sjoppa bæjarins og örugglega ein sú elsta á landinu. Þar hefur verið iðandi mannlíf frá árinu 1954 og margir bæjarbúar muna eftir sjoppunni í hjarta Keflavíkur.
Þynnkuborgarinn er vinsæll eftir skrall næturinnar en beikonborgarar beint frá býli eru það vinsælasta á grillinu.
Eflaust eru margir sem velta því fyrir sér hvort reksturinn muni hætta eftir eldsvoðann sem var í vikunni. Eins og Rúna Björt Garðarsdóttir rekstrarstjóri Brautarnestis sagði við VF eftir brunann er stefnt að því að halda rekstrinu áfram.
„Við erum enn í nokkru sjokki en við munum setjast niður og taka betur stöðuna þegar hlutirnir skýrast. Það er ljóst að það þarf að hreinsa út allt í húsinu og endurbyggja frá grunni. En við getum ekki látið þetta fara, okkur þykir of vænt um þessa sjoppu og við munum gera allt til þess að opna hana aftur”.
Sjónvarp Víkurfrétta heimsótti Brautarnesti fyrir nokkrum mánuðum og kynnti sér sjoppumenninguna sem þar ríkir. Hér er skemmtileg videofrétt úr þeirri heimsókn.