„Þykir vænst um gjafirnar sem börnin mín gefa mér“
Bjarki Sigmarsson er mikið jólabarn, hann sér ekki um jólabaksturinn á sínu heimili en hann er mikill matgæðingur og elskar allan jólamatinn. Hann heldur ekki fast í gamlar hefðir en súkkulaðikakan á aðfangadagskvöld er ómissandi partur af jólahátíðinni.
Ertu mikið jólabarn?
Já, ég myndi segja að ég væri talsvert jólabarn.
Heldur þú fast í gamlar jólahefðir?
Nei, ég er ekki mjög fastheldinn á jólahefðir, en þó hefur skapast sú hefð á mínu heimili að konan bakar alltaf Sufflé (súkkulaðiköku) seint á aðfangadagskvöld þegar búið er að opna gjafir og allt komið í ró.
Hvað er ómissandi á jólunum?
Umrædd súkkulaðikaka er algjörlega ómissandi með ís og rjóma.
Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Skemmtilegast þykir mér núorðið allur þessi matur (það sést nú á mér).
Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Nei, ég baka nú ekkert bara svona yfir höfuð, konan sér alfarið um það.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Jólagjafainnkaup eru alfarið í höndum konunnar, ég er gjörsamlega með allt lóðbeint niður um mig þegar kemur að því yfirleitt.
Hvenær setur þú upp jólatréð?
Það er misjafnt hvenær við setjum upp jólatré, yfirleitt þó einhvern tímann í vikunni fyrir jólin.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Eftirminnilegasta jólagjöfin sem ég hef fengið er sennilega Fisher Price leikfangalest sem ég fékk þegar ég var 4 eða 5 ára held ég. Hún er enn til á æskuheimilinu í fullkomnu lagi og hafa mín börn og börn systra minna leikið sér mikið að henni í gegnum tíðina. Núorðið þykir mér vænst um gjafirnar sem börnin mín gefa mér.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Jólin eru komin fyrir mér þegar ég heyri í kirkjuklukkunum í útvarpinu á aðfangadagskvöld kl. 18.