Þúsundir sóttu Sjóarann síkáta í Grindavík - myndir
Á bilinu 25-30 þúsund gestir lögðu leið sína til Grindavíkur á sjómanna- og bæjarhátíðina Sjóarann síkáta um síðustu helgi og skartaði bærinn sínu fegursta í sólinni, vandlega skreyttur í hverfalitunum.
Sjóarinn síkáti hefur nú fest sig rækilega í sessi sem bæjarhátíð okkar Grindvíkinga og koma gestir til okkar hvaðan æfa af landinu til að taka þátt í gleðinni sem er nánast orðin stanslaus í fjóra daga. Tjaldstæðið var þétt setið og einnig var tjaldað á gamla rollutúninu. Fullt var útúr dyrum á veitingastöðum og hjá öðrum þjónustuaðilum en Grindvíkingar kippa sér nú lítið upp við smá vertíðarstemmingu í verslun og þjónustu og stóðu vaktina með bros á vör.
„Skipuleggjendur hátíðarinnar vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem að henni komu og tóku þátt. Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og hlökkum til að sjá ykkur að ári,“ segir í tilkynningu frá Grindavíkurbæ.
Hér má sjá fjölda mynda frá hátíðinni í myndagalleríi VF.