Þúsundir í kjötsúpu og stemmning á heimatónleikum - myndir
Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur á öðrum degi Ljósanætur og líklega hafa aldrei fleiri mætt á dagskrárliði dagsins og kvöldsins. „Þetta eru örugglega fimm þúsund súpuskammtar hér í kvöld og stemmningin er mögnuð,“ sagði Axel Jónsson í Skólamat sem bauð að venju upp á kjötsúpu á meðan Bæjarstjórnarbandið hélt uppi tónlist og söng á Bryggjuballi, við smábátahöfnina í Keflavík.
Eftir súpu og stuðið á litla sviðinu færðist fjörið í nokkur hús í gamla bænum í Keflavík en þar voru tónleikar á fimm stöðum og jafn margar hljómsveitir komu fram. Þetta var viðburður sem var fyrst reyndur í fyrra og þótti takast mjög vel. Núna fóru kappar á borð við Jón Jónsson og Elíza Newman á kostum. Auk þeirra sendu Berndsen & Hermigervill, Markús & The Diversion Sessions og Ylja út flotta hausttóna. Stemmningin var frábær og á þriðja hundrað tónleikagestir gengu á milli húsa og nutu dagskrárinnar. Erla Guðundsdóttir, sóknarprestur í Keflavík og Sveinn maður hennar buðu heim í annað sinn og þau sögðu allt hafa gengið eins og í sögu og sama var uppi á tengingnum á hinum heimilunum.
Síðar um kvöldið hófust tónleikar á öldurhúsunum, Júdas á Ránni, Valdimar á Center og Trílógía lék á Paddy’s. Fyrr á deginum voru fjölmörg atriði. Sundkrakkar úr ÍRB syntu til dæmis frá Víkingaheimum inn í Keflavíkurhöfn. Minni tónleikar voru í ráðhúsi Reykjanesbæjar, dansleikur á Nesvöllum og fleiri viðburðir. Mikill fjöldi fólks var á Hafnargötunni í Keflavík og aðsókn mikil á flestar sýningar Ljósanætur um allan bæ.
Fjörið heldur áfram á Laugardegi. Stærstu viðburðirnir eru án efa Árgangaganga sem hefst kl. 13.30 en þétt dagskrá er um allan bæ í dag. Í kvöld verður svo hápunktur kvöldsins þegar tónlistardagskrá Magnúsar Kjartanssonar verður á stóra sviðinu og flugeldasýning í boði HS Orku að henni lokinni undir dúndrandi tónlist frá Páli Óskari.
Víkurfréttir voru með beina útsendingu í gærkvöldi á Facebooksíðu VF frá kjötsúpufjöri og bæjarstjórnarbandi og einnig frá heimatónleikum. VF verður með beina útsendingu frá árgangagöngunni í dag.
Í prentuðu dagskrárblaði VF sem kom út fyrir hátíðina má sjá alla dagskrárliði. Einnig á www.ljosanott.is
https://www.facebook.com/VikurfrettirEhf/?fref=ts
Skólamatarfólkið á fullu við að skenkja þúsundum skammta af kjötsúpu.
Jón Jónsson sló í gegn á heimatónleikum í gamla bænum.
Erla sóknarprestur keypti myndina „Jesú að pissa“ eftir Reyni Katrína á götumarkaði.
Alsælir sundkrakkar frá ÍRB en hópurinn synti í sjónum frá Víkingaheimum inn í Keflavíkurhöfn.