Þúsund VÍS húfur á Suðurnesjum
„Við höfum dreift 800 hér og 200 í Grindavík," segir Magnús Geir Jónsson þjónustustjóri VÍS í Reykjanesbæ um viðbrögð íbúa við skínandi húfum fyrir börn sem fyrirtækið bauð viðskiptavinum að þiggja. Þetta er þriðja árið í röð sem slíkt er gert. Á landsvísu svarar fjöldinn til þess að fjögur af hverjum tíu börnum á aldrinum 3ja til 12 ára hafi fengið húfu.
Magnús Geir segir upplagið hafa klárast á mettíma. „Það er bæði gaman og gefandi að fá unga fólkið í heimsókn til að velja sér glaðning. Með þessu stuðlum við að auknu öryggi þeirra í umferðinni. Ekki veitir af eftir því sem myrkrið eykst með degi hverjum. Húfurnar koma þó ekki í stað hefðbundinna endurskinsmerkja heldur eru góð viðbót með þeim.“