Þurftu að yfirgefa heimilið tvisvar sinnum á árinu
Kemur ekkert annað til greina en snúa til baka til Grindavíkur
Grindvíkingar hafa fundið fyrir miklum samhug landa sinna síðan þeir þurftu að yfirgefa heimili sín föstudaginn 10. nóvember. Það er nógu erfitt að þurfa gera það einu sinni en hjónin Sigurósk Erlingsdóttir og Róbert Hafliðason hafa þurft að gera það tvisvar sinnum á þessu ári því einbýlishús þeirra skemmdist mikið í bruna fyrr á árinu. Uppbygging fór seint af stað en var komin á gott skrið, von var á nýrri eldhúsinnréttingu og allt útlit var fyrir að fjölskyldan myndi flytja inn fyrir jól. Það mun hins vegar ekki gerast og vonast fjölskyldan til þess að framkvæmdum á húsinu verði lokið og hægt verði að flytja inn í það þegar Grindvíkingum verður hleypt að fullu inn í bæinn að nýju, hvenær sem það verður.
Sirrý, eins og hún er venjulega kölluð, var að keyra Róbert á Akranes á sjóinn 18. mars en hann er skipstjóri á Víkingi AK. „Við ákváðum að stoppa á KFC í Hafnarfirði þegar ég fékk símtal frá dóttur minni, hún sagði að það væri kviknað í húsinu og hún hefði ekki fundið slökkvitækið en sá svo að þetta var svo mikill eldur að hún hefði ekki ráðið við að slökkva hann. Við hentumst út í bíl og suður svo Róbert fór ekkert á sjóinn í það skiptið. Það var mjög skrítið að fá þetta símtal og heimferðin var sömuleiðis furðuleg. Við vorum auðvitað að vona það besta en þegar við komum á vettvang sáum við að þetta var miklu verra en við vonuðum og okkur var sagt að allt væri ónýtt í húsinu. Ofnar og allt var tekið, öllu var mokað út og húsið varð í raun fokhelt en svo liðu um fjórir mánuðir þar til uppbygging hófst af krafti. Iðnaðarmennirnir létu varla sjá sig og þurfti harðort símtal frá mér til að framkvæmdir hæfust almennilega. Allt var komið á bullandi siglingu og allt útlit fyrir að við myndum geta flutt inn fyrir jól og haldið þau saman á Ásabrautinni – en þá kom annað áfall.“
Áfall númer tvö
Von var á eldhúsinnréttingu 17. nóvember en þau plön fuku út í veður og vind. Fjölskyldan þurfti að skipta þrisvar sinnum um heimili fyrstu dagana en var að bíða eftir íbúð í Garðabæ þegar viðtalið var tekið. „Sem betur fer komumst við í leiguhúsnæði í Grindavík eftir brunann og þar fór vel um okkur svo það var mjög skrítin tilfinning að þurfa yfirgefa það heimili líka þennan örlagaríka föstudag. Við komumst til vinkonu minnar í Mosfellsbæ fyrstu helgina, fluttum okkur svo í lítinn sumarbústað í Brekkuskógi og fórum þaðan í bústað á Syðri-Brú sem Sjómanna- og verkalýðsfélag Keflavíkur á. Við vorum tíu þegar mest var, þröngt máttu sáttir sitja átti kannski vel við. Við erum að komast í íbúð í Garðabæ og getum verið þar þangað til við getum flutt aftur á Ásabrautina okkar í Grindavík. Það verður mikill munur að komast í Garðabæ, þetta hefur verið mikið skutl fram og baka. Hafliði sonur okkar spilar með Grindavík í körfubolta og hefur þurft að fara á æfingar og til vinnu svo það verður góð tilfinning að búa okkur heimili í Garðabænum. Svo er bara að bíða og sjá, það kemur ekkert annað til greina hjá okkur en flytja aftur til Grindavíkur en hvenær það verður er ekki gott að segja til um. Ég held að það sé best að vera raunsæ og gera ekki ráð fyrir því fyrr en með vorinu en þá vona ég líka að framkvæmdum á Ásabrautinni verði lokið og við getum flutt heim til okkar. Einhvern veginn finnst mér við eiga það skilið eftir þetta ótrúlega ár, ég átti aldrei von á að upplifa að þurfa yfirgefa heimilið mitt, hvað þá tvisvar sinnum á sama árinu,“ sagði Sirrý að lokum.