Þrjú af Suðurnesjum útskrifast frá Sissu
Nemendur Ljósmyndaskóla Sissu opna lokasýningu sína laugardaginn 26. maí nk. klukkan 16.00 að Hólmaslóð 6. Sýningin stendur til 3. júní og er opin alla daga frá klukkan 14.00 – 19.00. Í ár útskrifast 16 nemendur frá Ljósmyndaskólanum. Þar af eru þrír nemendur frá Suðurnesjum. Það eru þeir Máni Ingólfsson og Héðinn Eiríksson úr Reykjanesbæ og Sólný Pálsdóttir úr Grindavík. Sýningin hefur verið vel sótt síðustu ár og hafa nemendur lagt hart að sér þetta árið til að gera sýninguna sem glæsilegasta. Enginn aðgangseyrir er á sýninguna.
Ljósmyndaskóli Sissu hefur verið starfræktur síðan 1997. Markmið skólans er að kenna grunn ljósmyndunar bæði fyrir þá sem vilja ljósmynda sér til ánægju og eins þá sem hyggja á frekara nám og starf. Kennd er meðhöndlun ýmissa myndavéla, svart/hvít filmuframköllun og stækkun, frágangur mynda, stúdíólýsing og hvernig nýta má birtu.
Nemendum eru kynntar ýmsar leiðir svo sem portrett-, tísku-, landslags-, auglýsinga-, blaðaljósmyndun og ljósmyndun sem list. Margir af helstu ljósmyndurum landsins kenna við skólann m.a. Páll Stefánsson, Spessi, Einar Falur, Golli, Börkur, Kristján Maack, Sigfús Már, Gúndi, Sigurgeir Sigurjónsson, Gunnar Svanberg, Kjartan Már, Atli Már auk Sissu og Leifs.
Nánari upplýsingar á http://www.ljosmyndaskolinn.is/
Mynd eftir Sólný Pálsdóttur