Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir
Föstudagur 15. júní 2018 kl. 09:56

Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir

- hæstu tré á sjötta metra

Í ár eru liðin þrjátíu ár síðan hafin var skógrækt við Rósaselstjarnir. Það er svæði sem er ofan byggðarinnar í Keflavík. Svæðið var innan sveitarfélagsmarka Sveitarfélagsins Garðs og tilheyrir nú sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis. Svæðið hefur hins vegar í áratugi verið vinsælt útivistarsvæði hjá Keflvíkingum og verið leynd perla sem lengi var innan flugvallargirðingar. Fólk læddist yfir eða undir girðinguna til að fara á skauta á frosnum tjörnunum.

Árið 1988 hóf Rotaryklúbbur Keflavíkur að gróðursetja við Rósaselstjarnir. Þá var svæðið enn innan girðingar og vaktað af Varnarliðinu og því þurfti leyfi frá Varnarliðinu til að fara á svæðið til gróðursetningar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Konráð Lúðvíksson læknir hefur tekið þátt í gróðursetningunni í öll þessi ár, enda með græna fingur og áhugasamur um uppgræðslu á svæðinu. Í samtali við Víkurfréttir sagði Konráð að fyrsta verkið fyrir 30 árum hafi verið að fara með vörubíl í Heiðmörk ofan Reykjavíkur og sækja þangað lúpínu sem hafi verð sett niður við Rósaselstjarnir. Hún hafi verið grunnurinn að því sem þarna er í dag og myndað bæði jarðveg og skjól.

Rotarymenn úr Keflavík hafa árlega gróðursett 300 trjáplöntur á svæðinu og því hafa verið sett niður 9000 tré af klúbbnum þessa þrjá áratugi. Fleiri hafa komið að gróðursetningu á svæðinu. Þannig hefur Oddfellowreglan komið að gróðursetningu við tjarnirnar, einnig Vímulaus æska og Lionessur. Þá er Fjölbrautaskóli Suðurnesja með svæði við tjarnirnar í fóstri og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, setti niður plöntur við Rósaselstjarnir og þar er lundur í hennar nafni.

Eftir að malbikaður göngu- og hjólreiðastígur var lagður frá Eyjabyggðinni í Keflavík og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er útivistarsvæðið við Rósaselstjarnir orðið mun aðgengilegra. Áður hafi þarna bara verið hálfgerður jeppaslóði en nú sé auðveldara að koma aðföngum að svæðinu og hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu við tjarnirnar. Áhugi sé fyrir því að leggja stíg kringum tjarnirnar.

Eins og áður segir er svæðið innan sveitarfélagsmarka nýs sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis þó svo það liggi aðeins nokkuð hundruð metra frá efstu byggð í Keflavík. Konráð rifjar upp að þegar menn sýndu svæðinu fyrst áhuga til skógræktar fyrir 30 árum, þá hafi heyrst áhyggjuraddir utan úr Garði að þarna væru Keflvíkingar hugsanlega að sölsa undir sig þetta svæði. Konráð segir af og frá að Rósaselstjarnir séu einkamál Keflvíkinga, þetta sé áhugavert útivistarsvæði og náttúruperla fyrir alla. Rotaryfélagar hafi aðeins gert svæðið verðmætara sem útivistarsvæði með gróðursetningu síðustu þrjá áratugi.

Konráð segir að gróðursetningin á svæðinu hafi tekist vel. Þar eru hæstu tré í dag á sjötta metra og svæðið hafi tekið miklum framförum á síðustu árum með breyttu veðurfari og betri vaxtarskilyrðum. Fyrstu trjáplönturnar á svæðinu hafi verið Tröllavíðir en nú sé meiri fjölbreytni. Í fyrstu gerðu menn ráð fyrir að 30% myndu lifa af á svæðinu. Árangurinn sé mun betri en það í dag. Sprettan sé hins vegar misjöfn, enda sé landið erfitt til að grjóðursetja í. Þar sé mikið af grjóti og jarðvegurinn tæpur en vöxturinn bara fínn, segir Konráð. Þá séu plönturnar mun betri í dag en fyrir 30 árum. Í gróðursetningu Rotaryklúbbs Keflavíkur sl. fimmtudag hafi t.a.m. verið gróðursettar 300 plöntur sem séu þriggja ára gamlar. Það skipti miklu máli, því rótarkerfi svo gamalla trjáa sé betra en á þeim yngri.

Trén á svæðinu dafna ekki bara vel. Fuglalífið hefur einnig aukist, enda margir fuglar sem sækja í skjólið frá trjánum og nálægðina við tjarnirnar.

Eins og kemur fram hér að framan þá eru Rotaryklúbbur Keflavíkur og Fjölbrautaskóli Suðurnesja einu aðilarnir sem séu að setja niður trjáplöntur við Rósaselstjarnir. Konráð hvetur fleiri aðila til að koma að verkefninu og taka svæði við tjarnirnar í fóstur ef svo má segja. Það sé skemmtileg dagstund að taka þátt í gróðursetningu og gera sér svo glaðan dag á eftir. Þannig hafi Rotaryfólk gefið sér góðan klukkutíma í að gróðursetja og svo var slegið upp grillveislu og fólk gerði sér glaðan dag.

Myndirnar með fréttinni tók Hilmar Bragi með flygildi yfir Rósaselstjörnum sl. fimmtudag þegar Rotaryklúbbur Keflavíkur var þar við gróðursetningu.

Viðtal og myndir, Hilmar Bragi, [email protected]