Þrjár umhverfisviðurkenningar í Sandgerði
Umhverfis-, ferða- og menningarmálaráð Sandgerðisbæjar afhenti umhverfisviðurkenningar sínar fyrir árið 2000 í hófi á veitingahúsinu Vitanum í Sandgerði á mánudagskvöld. Þrír aðilar fengu viðurkenningar að þessu sinni.Þau sem fengu viðurkenningu að þessu sinni eru eigendur Hólagötu 16, þau Þórður Þorkelsson og Vilborg Knútsdóttir. Viðurkenningin er fyrir snyrtilegan frágang á húsi og lóð. Þá fengu Halldór Ármannsson og Þóra Kjartansdóttir viðurkennigu fyrir endurbætur á húseigninni Ásabraut 1. Það hús var byggt 1960 en hefur verið endurbætt mikið síðan 1995. Þá fékk fiskvinnslufyrirtækið Ný-Fiskur viðurkenningu fyrir snyrtilegan frágang á nýbyggingu. Birgir Kristinsson og María Björnsdóttir tóku við þeim viðurkenningum.Umhverfisnefnd Sandgerðis hefur á síðustu 20 árum veitt 45 viðurkenningar til 38 einstaklinga og 7 fyrirtækja. Formaður nefndarinnar er Ingþór Karlsson og afhenti hann viðurkenningarnar.