Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:38

ÞRJÁR RÚSÍNUR Á MANN

Ingibjörg Jónsdóttir fæddist á Eyrarbakka þann 15. desember 1912. Móðir hennar hét Helga Jónsdóttir og stjúpi hennar var Ingimundur Vigfússon. Ingbjörg ólst upp hjá ömmu sinni og afa á bænum Kaldbak á Eyrarbakka. Árið 1928, þegar hún var 16 ára, flutti hún til Keflavíkur. „Það fluttust svo margir suður á þessum árum því það var ekkert að gera heima og fólk leið skort. Það var mikið til hætt að fiskast og fólk lifði af landbúnaði“, segir Ingibjörg. Sætsúpa með kanilstöng Ingibjörg segir að jólin hafi nú ekki verið mikil um sig þegar hún var ung en alltaf hafi verið nóg að borða á jólunum. „Hangikjöt með uppstúf var hefðbundinn jólamatur í þá tíð en aldrei sáust grænar baunir. Við fengum líka alltaf voðalega góðan grjónagraut og sætsúpa með sveskjum, rúsínum og kanilstöng“, segir Ingibjörg og af svip hennar má dæma að sætsúpan hafi verið í miklu uppáhaldi. Ingbjörg hefur upplifað ýmislegt á langri ævi og hún segist muna þegar allt var skammtað á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar en þá voru þrjár rúsínur á mann. Heimasmíðað jólatré Jólaseríur og amerískar jólakúlur þekktust ekki í gamla daga og jólatrén voru heimasmíðuð. „Við höfðum enga aðra skreytingu en jólatréð. Afi renndi stöpul, festi litla pinna í stöpulinn og málaði tréð grænt. Móðurbróður bestu vinkonu minnar, Súsönnu, vann sem bókbindari. Við fengum síðan afklippurnar af bókbandinu sem var mjög fallegt, og bjuggum til poka úr þeim. Afi smíðaði sérstakar klemmur sem við notuðum til að festa pokana á jólatréð og í pokana létum við kertin. Við urðum að fara voðalega varlega með þetta því afi var alveg svakalega eldhræddur“, segir Ingibjörg. Afi var rokkasmiður Á fyrri hluta aldarinnar hafði fólk ekki úr miklu að spila en Ingibjörg segist aldrei hafa liðið skort því það var farið vel með allt. „Það var svolítið um það að við gæfum hvort öðru gjafir, það voru þá helst flíkur sem mann vantaði og bækur. Afi minn var rokkasmiður og við höfðum það ágætt. Ég átti yndislega góða æsku og jólin skipuðu alltaf sérstakan sess í huga mér, en þau gera það ekki lengur“, segir Ingibjörg. Henni finnst jólastandið í dag alltof viðamikið en tekur það sérstaklega fram að það sé erfitt að líkja þessu sama því allt hefur breyst svo mikið. „Ég vil ekki að þetta byrji svona snemma. Það er þá allt saman farið þegar jólin koma“, segir Ingibjörg. En hvar ætlar hún að vera á jólunum í ár? „Ég ætla að vera í Hrísey hjá yngri stráknum mínum“, segir Ingibjörg og hlær sínum dillandi hlátri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024