Þrettándinn í Vogum
Jólin voru kvödd með pompi og prakt í Vogunum á þrettándanum. Kvenfélagið Fjóla hélt fjörugan dansleik í félagsmiðstöðinni fyrir yngri kynslóðina þar sem krakkarnir dönsuðu og fóru í leiki.
Eftir dansleikinn bauð Lionsfélagið Keilir upp á heitt súkkulaði, kaffi og bakkelsi í Lionshúsinu. Skógræktarfélagið Skógfell sá svo um að grilla sykurpúða fyrir íbúa bæjarins. Þá komu Grýla og Leppalúði og spjölluðu við börnin. Engum var meint af og allir komust heilir á húfi heim enda hjónin bæði orðin grænkerar og löngu hætt að borða börn.