Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Þrettándagleði í Reykjanesbæ á morgun
    Frá þrettándagleði í Reykjanesbæ. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Þrettándagleði í Reykjanesbæ á morgun
Mánudagur 5. janúar 2015 kl. 09:41

Þrettándagleði í Reykjanesbæ á morgun

Árleg þrettándagleði í Reykjanesbæ verður haldin á morgun, þriðjudaginn 6. janúar, á hátíðarsvæði á Bakkalág og við Hafnargötu 8. Stutt dagskrá hefst kl. 18:00 með blysför í fylgd álfa frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði.

Foreldrar eru hvattir til að fjölmenna með börnin í blysförina og taka með sér kertaluktir að heiman. Einfalt er að útbúa lukt úr glerkrukku og spotta/vír.

Á hátíðarsvæði mun Grýla gamla ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum stýra dagskrá á sviði þar sem álfakóngur og álfadrottning ásamt álfakór syngja söngva tengda þrettándanum. Grýla tekur svo lagið með börnunum og púkar og fleiri kynjaverur verða á sveimi á svæðinu.

Þrettándabrennan verður á sínum stað Bakkalág ef veður leyfir.

Reykjanesbær býður gestum að ylja sér á heitu kakói og piparkökum. Á vef Reykjanesbæjar er vakin athygli á bílastæðum við Ægisgötu og einnig við ráðhús bæjarins að Tjarnargötu 12.

Uppfært:

Tekin hefur verið sú ákvörðun að aflýsa fyrirhugaðri þrettándagleði í Reykjanesbæ, sem fara átti fram á morgun kl. 18:00, þar sem veðurspá er mjög slæm. Gert er ráð fyrir suðaustan 18 m/s um sexleytið og fer vindur vaxandi er líður á kvöldið. Það er því útséð um að kveikt verði í brennu eða flugeldum skotið á loft.

Flugeldasýning á laugardag

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Björgunarsveitin Suðurnes er tilbúin með glæsilega flugeldasýningu og verður hún því haldin laugardaginn 10. janúar kl. 18.00 af Berginu, líkt og á Ljósanótt. Þá er veðurspá mjög góð og haldist hún þannig gerum við ráð fyrir að fólk safnist saman á hátíðarsvæðið okkar á Bakkalág og njóti hennar.



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024